12:35
{mosimage}
(Hlynur Bæringsson verður í eldlínunni gegn Hamri í kvöld)
Í kvöld verður nóg um að vera í íslenska boltanum og þá lýkur fimmtu umferðinni í Iceland Express deild karla með viðureign Hamars og Snæfells í Hveragerði kl. 19:15.
Hamar og Snæfell eru jöfn bæði með tvö stig að loknum fjórum umferðum, hafa bæði unnið einn leik og tapað þremur. Upphaf leiktíðarinnar hjá Snæfellingum var þyrnum stráð þar sem þeir töpuðu fyrstu þremur leikjunum sínum gegn Njarðvík, Keflavík og KR en höfðu svo sinn fyrsta deildarisgur gegn Stjörnunni í fjórðu umferð.
Hamar landaði sínum fyrstu stigum í deildinni í þriðju umferðinni þegar þeir lögðu Fjölni á heimavelli. Bæði lið eru því að berjast fyrir mikilvægum stigum í kvöld í deild sem er nokkuð jöfn og spennandi þar sem allir virðast geta unnið alla.
Þrír leikir fara svo fram í 1. deild karl og hefst sá fyrsti kl. 18:00 þegar Valur tekur á móti KFÍ í Vodafone höllinni að Hlíðarenda. Í Smáranum mætast svo Breiðablik og Ármann/Þróttur kl. 19:15 og kl. 20:00 mætast Þróttur Vogum og FSu í Vogum á Vatnsleysuströnd.
Þrír leikir verða einnig í 1. deild kvenna og hefst sá fyrsti kl. 19:15 í Ljónagryfjunni þegar Njarðvík tekur á móti Haukum B. Frítt verður á leikinn í boði Trésmíðaverkstæðis Stefáns og Ara.
Kl. 20:00 mætast svo Þór Akureyri og Tindastóll í Höllinni á Akureyri og kl. 21:00 verður karlaleikurinn í Smáranum endurtekinn í 1. deild kvenna þegar Breiðablik mætir Ármanni/Þrótti.
Sem sagt nóg um að vera í kvöld og fólk hvatt til að fjölmenna á völlinn!