spot_img
HomeFréttirFjöldi leikja í kvöld

Fjöldi leikja í kvöld

12:22

{mosimage}

 

(Jóhann Árni á góðri stundu með Njarðvíkingum) 

 

Þriðju umferð í Iceland Express deild karla lýkur í kvöld með tveimur leikjum sem báðir hefjast kl. 19:15. Á Sauðárkróki taka Stólarnir á móti Skallagrím og í Ljónagryfjunni freista Njarðvíkingar þess að landa sínum 18. deildarsigri í röð þegar bikarmeistarar ÍR koma í heimsókn. Þá verður einnig leikið í 1. deild karla í kvöld og 1. deild kvenna.

 

Með sigri í kvöld komast Njarðvíkingar á topp deildarinnar ásamt grönnum sínum úr Keflavík. Njarðvík hefur lagt Snæfell og Þór Akureyri að velli í fyrstu tveimur umferðunum en ÍR lá fyrir nýliðum Þórs í fyrstu umferðinni en höfðu svo sigur gegn Tindastól í annarri umferðinni.

 

(Innskot af www.visir.is )

Njarðvíkingar unnu fimmtán síðustu leiki sína í deildarkeppninni í fyrra og hafa því ekki tapað deildarleik síðan gegn KR í DHL-Höllinni 19. nóvember 2006. Njarðvík hefur enn fremur unnið alla heimaleiki sína í deildinni síðan þeir töpuðu fyrir Grindavík í framlengdum leik 4. desember 2005 og heimasigrarnir eru því orðinir 18 í röð.

 

{mosimage}

(Darrell Flake)

 

Bæði Tindastóll og Skallagrímur hafa unnið einn leik og tapað einum í fyrstu tveimur umferðunum. Áskell hetja Jónsson bjargaði fyrstu stigum vetrarins hjá Sköllunum með sigurkörfu gegn Hamri en Stólarnir unnu góðan útisigur á Hamri í fyrstu umferðinni. Það verður vafalítið hart barist á Króknum í kvöld. Frítt verður á leikinn á Króknum í kvöld í tilefni af 100 ára afmæli félagsins. Það er Steinull hf og Sparisjóður Skagafjarðar sem bjóða á leikinn í tilefni af afmælinu. Í hálfleik verður svo dreginn út ferðavinningur fá Iceland Express svo það er til mikils að vinna á Króknum í kvöld?

 

Í 1. deild karla eru þrír leikir á dagskránni og hefjast þeir allir kl. 20:00. Haukar fá Hött í heimsókn, Þór Þorlákshöfn tekur á móti Blikum og KFÍ fær FSu í heimsókn á Ísafjörð.

 

Haukar hafa tapað fyrstu tveimur deildarleikjum sínum og freista þess að landa fyrstu stigunum sínum í kvöld en Hattarmenn hafa farið vel af stað með öruggum sigrum gegn Þrótti Vogum og Reyni Sandgerði.

 

Blikar þykja með sterkari liðum deildarinnar í ár þar sem Einar Árni Jóhannsson þjálfari stýrir liðinu með styrkri hendi. Blikar völtuðu yfir Reyni Sandgerði í fyrstu umferð og burstuðu svo Hauka 99-78 í annarri umferð í Smáranum. Blikar heimsækja Þór í Þorlákshöfn í kvöld en Þórsarar hafa tapað tveimur fyrstu leikjunum sínum, gegn FSu og Val.

 

KFÍ landaði sínum fyrsta deildarsigri síðasta laugardag er þeri höfðu góðan útisigur á Þrótti í Vogum, 61-72. Lið FSu heldur til Vestfjarða í kvöld og leitar þá að sínum þriðja deildarsigri í röð en þeir lögðu Þór Þorlákshöfn og Ármann/Þrótt í fyrstu umferðinni.

 

Þá fer einn leikur fram í 1. deild kvenna í kvöld þegar Breiðablik tekur á móti Njarðvík. Bæði þessi lið höfðu sigur í fyrstu umferðinni, Blikar lögðu Þór Akureyri 52-60 fyrir Norðan og Njarðvík hafði nauman sigur á KR B 67-66 í spennuleik í Ljónagryfjunni. Leikur Blika og Njarðvíkur hefst kl. 19:15 í Smáranum í Kópavogi.

 

Eitthvað fyrir alla í kvöld og því um að gera að fjölmenna á völlinn og styðja rækilega við bakið á sínu liði.

 

 [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -