spot_img
HomeFréttirFirnasterkt Valslið með öruggan sigur að Hlíðarenda

Firnasterkt Valslið með öruggan sigur að Hlíðarenda

Valur tók á móti Snæfell í kvöld í leik sem varð aldrei spennandi. Valsliðið var einfaldlega sterkara liðið og þrátt fyrir að Snæfell ynni þriðja leikhluta með einu stigi varð snemma ljóst hvort liðið færi með sigur af hólmi.

Gangur leiks:

Leikurinn hófst þó ágætlega en þegar staðan var 5-8 fyrir Snæfelli eftir upphafsmínúturnar tóku Valsstelpurnar völdin á vellinum og skoruðu 15 stig gegn 2 Snæfellsstigum. Helena Sverrisdóttir fór fyrir liði Vals í fyrri hálfleik með 17 stig og þær Sylvía Rún og Kiana 10 stig hvor.
Staðan 55-30 í hálfleik.


Þriðji leikhluti var jafnast leikhlutinn en Snæfell vann hann 25-26 en samt virtist bara formsatriði fyrir Val að klára leikinn enda vinna þær lokaleikhlutinn 30-19 og leikinn 110-75.


Valsliðið virkar firnasterkt og hvergi veikan punkt að finna, byrjunarliðið skorar 83 stig í leiknum og allir leikmenn liðsins sem spiluðu eru með plús í framlag!

Atkvæðamestar:

Helena (22 stig), Kiana (33 stig), Sylvia Rún (15 stig) og Dagbjört Dögg (23 stig) voru atkvæðamestar í Valsliðinu auk Reginu Palusna (11 fráköst).

Hjá Snæfelli voru Gunnhildur, Veera Annika og Chandler einna mest áberandi og Soffía Lára átti fína spretti. Liðið tapaði of mörgum boltum og átti hreinlega við ofurefli að etja í kvöld.

Tölfræðin lýgur ekki:

Valsliðið var með yfir 50% skotnýtingu í leiknum bæði í tveggja stiga og þriggja stiga skotum og aðeins 12 tapaða bolta á móti 21 töpuðum hjá Snæfelli.

Kjarninn:

Öruggur sigur Vals 110-75 staðreynd í leik sem aldrei varð spennandi.

Tölfræði leiksins

Umfjöllun / Hannes Birgir

Fréttir
- Auglýsing -