spot_img
HomeFréttirFÍR í færi

FÍR í færi

Við erum nú bara stödd í 8-liða úrslitum en tökum engu að síður eftir einum möguleika. Friðrik Ingi Rúnarsson er í færi á að endurskrifa söguna í íslenskum körfuknattleik ef hann gerir Keflavík að Íslandsmeisturum.

Takist Friðriki Inga þetta þá verður hann fyrstur manna til að stýra meistaraflokkum karla allra Suðurnesjaliðanna til Íslandsmeistaratitils!

Jafnan hefur það þótt tíðindum sæta ef einhverjir komast í þann hóp að ná leik með öllum liðunum eins og þeir Nick Bradford og Magnús Þór Gunnarsson hafa afrekað en nú er Friðrik annar manna til að hafa þjálfað öll þrjú karlaliðin og er í sjálfri baráttunni um titilinn. Gunnar Þorvarðarson átti þann heiður fyrstur að hafa þjálfað alla þrjá Suðurnesjarisana.

Árið 1991 gerði Friðrik Ingi Rúnarsson uppeldisklúbbinn sinn í Njarðvík að Íslandsmeisturum eftir 3-2 sigur á Keflavík í úrslitum og stýrði þá köppum á borð við nafna sinn Ragnarsson, Stefán, Gunnar og Teitur Örlygssynir voru einnig í liðinu sem og Rondey Robinson.

Fimm árum síðar eða árið 1996 var Friðrik Ingi þjálfari Grindavíkur og færði Grindvíkingum sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í sögu félagsins karlamegin. Þar voru m.a. Guðmundur Bragason, Helgi Jónas, Páll Axel og fleiri góðir ásamt svifdrekanum Rodney Dobart.

Tímabilið 1997-1998 gerði hann Njarðvík svo aftur að meisturum eftir 3-0 sigur á KR og þá var Logi Gunnarsson kominn til kastanna og Petey nokkur Sessoms fór mikinn en þarna mátti einnig finna Örlyg heitinn Sturluson og stórgrínarannn Örvar Þór Kristjánsson.

Eins og öllum er kunnugt er Friðrik við stýrið hjá Keflavík í dag og það yrði heldur betur afrek sem seint yrði leikið eftir ef honum tækist að landa þeim stóra. Þar með yrði hann bæði orðinn annar í röðinni til að þjálfa öll Suðurnesjaliðin þrjú í úrvalsdeild, fara með þau í úrslitakeppni og fyrstur til þess að vinna þann stóra með þau öll.

Fréttir
- Auglýsing -