Boðið var upp á tölur úr bandaríska háskólaboltanum í kvöld þegar KR lagði Grindavík 59-47 í Domino´s deild kvenna. Sigurinn var sá fimmti í röðinni hjá KR í deildinni og sagði Finnur Freyr þjálfari KR við Karfan.is í kvöld að hann vissi nú ekki hvort það væri eitthvað til að tala um. Eftir sigurinn í kvöld er KR í 3. sæti deildarinnar með 28 stig en Grindavík í 7. sæti með 12 stig.
,,Ég veit nú ekki hvort það sé eitthvað til að tala um. Við erum nýbúin með 5 leikja taphrinu en vinnum t.a.m 4 leiki í röð fyrir áramót á kafla þar sem við vinnum 8 af 10 leikjum þannig þetta segir kannski ekki mikið. En ætli frammistaða Shannon veiti okkur ekki aðeins meiri athygli. Við höfum hins vegar ekki afrekað eitt eða neitt í vetur og verð ég að viðurkenna að ég er enn grænn af öfund útí Keflavíkurliðið eftir bikartitilinn,” sagði Finnur og nokkuð ljóst að allsherjar yfirhalning hefur orðið á liði KR með tilkomu McCallum.
,,Shannon hefur komið virkilega sterkt inní þetta hjá okkur enda frábær leikmaður. Hún hefur komið með aukna stærð og íþróttamennsku í liðið sem hefur hjálpað okkur á báðum endum vallarins. Við vorum í raun alltaf með 2 leikstjórnendur inná fyrir áramót með Patechiu og Björgu en núna er uppsetningin á liðinu eðlilegri þar sem Björg og Rannveig sjá um leikstjórnina og með Shannon á vængnum,” sagði Finnur en í sambandi við leikinn í kvöld sagði hann Grindavíkurleiki aldrei auðvelda.
,,Þessir leikir við Grindavík eru aldrei auðveldir, ekki frekar en aðrir leikir í þessari deild. Mér fannst við koma út flatar í leiknum, sérstaklega varnarlega og smitaði það út frá sér í sókninni. Við höfum átt góða æfingaviku og því í raun ákveðin vonbrigði að koma ekki út sterkar en þetta. Shannon og Sigrún voru reyndar tæpar fyrir leikinn eftir mikla byltu sem þær hlutu á mánudaginn en voru naglar og spiluðu leikinn, þökk sé Skúla sjúkraþjálfara. Fín frammistaða í öðrum og fjórða leikhluta gerir útslagið fyrir okkur. Guðrún Gróa stóð sig mjög vel á Crystal Smith og liðsvörn og fráköst voru til fyrirmyndar þegar mest á reyndi. Þannig ég er sáttur við stigin 2 og sigur á heimavelli,” sagði Finnur en næsta verkefni röndóttra er hvorki meira né minna en nágrannaglíma við Val.
,,Framundan er svo hörkuleikur við Val. Þær eru búnar að flengja okkur illa tvisvar í vetur og núna síðast í byrjun janúar á okkar heimavelli þannig við eigum harma að hefna. Það er mikill missir fyrir Valsliðið að Guðbjörg Sverris skuli ekki vera meira með eftir að hafa átt virkilega gott tímabil og vil ég nota tækifærið og óska henni góðs bata. Valsliðið er hinsvegar með sterkan karakter einsog það sýndi í seinni hálfleiknum gegn Keflavík í bikarnum og Gústi er að gera virkilega vel á Hlíðarenda. Við þurfum því að mæta mjög einbeittar og tilbúnar ef við ætlum okkur að ná einhverju úr þeim leik.”



