Finnur Freyr Stefánsson þjálfari U20 landsliðsins var gríðarlega ánægður með sigur liðsins í 16. liða úrslitum Evrópumótsins. Liðið er þar með komið í 8 liða úrslit og mætir Ísrael á morgun (fimmtudag).
„Ég er svo fáránlega stoltur af þessum hóp drengja og hvernig hann hefur vaxið einmitt frá fyrsta leik gegn Svíþjóð fyrr í sumar. Hvernig liðið hefur þjappað sér saman og gert betur og betur með hverjum leiknum.“ sagði Finnur við Karfan.is strax eftir leik.
„Eins og í undan förnum leikjum þá viljum við þetta bara svo mikið. Við viljum berjast og stundum hefur það öfug áhrif í byrjun en svo þegar við lendum undir þá eru engin tækifæri til að hugsa. Þá vöðum við bara á þetta. Breki kemur inn og setur tvo þrista til að koma okkur af stað í fyrsta “
„Við vorum með ákveðið plan. Við viljum alltaf halda leiknum jöfnum fram í fjórða leikhluta og springa svo út svo við vorum á áætlun. Taflan sýndi ákveðið skor en við vorum ekki að einbeita okkur að því.“
„Þetta er besti árangur sem íslenskt körfuboltalandlið hefur náð á móti. Bæði að hafa tryggt áframhaldandi veru okkar hérna og komist í átta liða úrslit ásamt þessum risaþjóðum. Við erum ekkert hættir. Við berjumst og gerum allt sem við getum til að komast áfram. Höfum séð það áður að öskubuskuhlutverkið fer okkur ágætlega.“
Ísland leikur gegn Ísrael á morgun (Fimmtudag kl 11:30) og er leikurinn í beinni útsendingu á Youtube-rás FIBA.