spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaFinnur Freyr um leik kvöldsins í Þorlákshöfn "Freistandi að segja að leikur...

Finnur Freyr um leik kvöldsins í Þorlákshöfn “Freistandi að segja að leikur fjögur sé í raun úrslitaleikur”

Þór tekur á móti Keflavík í kvöld í fjórða leik úrslitaeinvígis liðanna í Dominos deild karla. Fyrir leik kvöldsins hafa Þórsarar unnið tvo leiki á móti einum Keflavíkur og geta þeir því með sigri tryggt sér fyrsta Íslandsmeistaratitil félagsins. Fyrsta leik einvígisins vann Þór nokkuð örugglega í Keflavík, annar leikurinn var öllu jafnari þar sem að Þór vann með fimm stigum, en þann síðasta vann Keflavík heima í Blue höllinni nokkuð örugglega.

Karfan heyrði í Finn Frey Stefánssyni þjálfara Vals og spurði hann út í einvígið og leik kvöldsins í Þorlákshöfn.

Hvernig hefur þér fundist úrslitaeinvígið hingað til, hefur eitthvað komið þér á óvart?

“Það kom mér einsog flestum á óvart hversu sterkir Þorlákshafnar Þórsarar voru í fyrsta leiknum. Keflvík virtust koma ansi værukærir til leiks eftir að hafa ekki tapað leik í langan tíma og fengu rækilega á kjaftinn. Þeir voru ennþá vankaðir eftir kjaftshöggið í leik tvö á meðan Þór var með sjálfstraustið í botni. Það er svo ekki fyrr en í þriðja leiknum sem Keflavík spilaði í takt við spilamennskuna sem þeir hafa sýnt í allan vetur og á sama tíma skrekkur í Þórsliðinu. Það er alltaf erfiðast í úrslitakeppninni að klára einvígin, að vinna þennan þriðja leik þar sem andstæðingurinn er með bakið upp við vegg. Talandi nú ekki um þegar þú vaknar að morgni leikdags og veist að þú getur orðið meistari um kvöldið, bikarinn í salnum, þá er ennþá flóknara að núllstilla sig”

Hvað sérð þú gerast í fjórða leiknum í kvöld?

“Þetta er búið að vera skrítið einvígi að því leytinu að leikirnir hafa verið ójafnir og óspennandi hingað til en núna hlýtur að komast á jafnvægi milli liðanna. Það er freistandi að segja að leikur fjögur sé í raun úrslitaleikur um hvort liðið vinni, þ.e.a.s að ef Kef jafnar þá klára þeir þetta á heimavelli í leik fimm. Ég á erfitt með að spá fyrir um hvernig þetta endar út frá einhverri leikfræði en það er eitthvað sem segir mér að Þór klári þetta á heimavelli í leik fjögur. Það eru fleiri leikmenn sem geta dottið á góðan leik í Þórsliðinu og verið þessir X-faktorar og ég held að Callum Lawson verði sá aðili í fjórða leiknum. Það er líka vond tilhugsun Þórs vegna, að komast í 2-0 og tap 3-2 í lokaúrslitunum”

Fréttir
- Auglýsing -