spot_img
HomeFréttirFinnur Freyr eftir leikinn gegn KR "Létum leiða okkur út í þennan...

Finnur Freyr eftir leikinn gegn KR “Létum leiða okkur út í þennan hlaupaleik”

KR lagði Val í kvöld í átta liða úrslitum Dominos deildar karla. Með sigrinum komst KR aftur í bílstjórasætið í einvíginu, 2-1, en næsti leikur liðanna er komandi miðvikudag í DHL Höllinni.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Finn Frey Stefánsson, þjálfara Vals, eftir leik í Origo Höllinni.

Finnur Freyr er alger fagmaður og veitti Körfunni viðtal þó hann hafi um margt að hugsa fyrir næsta leik:

Heyrðu…bara hræðileg vonbrigði fyrir þig og þína menn…þetta var bara alls ekki gott?

Nei…við bara töpuðum fyrir liði sem spilaði mun betur í kvöld, við vorum einhvern veginn alltaf skrefinu eftir á og létum leiða okkur út í þennan hlaupaleik og náðum aldrei að klukka þá varnarlega. Við ætluðum svo alltaf að svara fyrir okkur hinum megin í staðinn fyrir að þétta raðirnar í vörninni.

Akkúrat, það var kannski svolítið sagan. Við töluðum um það eftir síðasta leik að þið þyrftum bara að hitta svolítið betur og þið gerðuð það…og reyndar á móti komu KR-ingar í veg fyrir sóknarfráköst…en það var eins og þið ættuð eiginlega ekki séns í leiknum…

Mér fannst við nú alveg eiga séns í þessum leik, mér fannst á köflum þetta vera að detta í fín mál en við féllum alltaf frá því sem var að virka fyrir okkur…við létum teyma okkur út í einhverjar snöggar ákvarðanir, snögg skot eða snöggar árásir á hringinn og fengum hraðaupphlaupskörfur í bakið. Þannig að við vorum engan veginn nógu agaðir í kvöld og svo var vont að missa Pavel útaf með 5 villur svona þegar við vorum að reyna að hlaða í comeback…vont að geta ekki notað hann meira en í 18 mínútur í dag. En heilt yfir spilaði KR-liðið bara töluvert betur og áttu sigurinn fyllilega skilinn.

Já heldur betur. Hvað sérðu í þessu sem þið þyrftuð helst að breyta til að jafna einvígið í næsta leik?

Við þurfum að standa vörnina töluvert betur og vera harðari í okkar aðgerðum, við þurfum að setja saman í hörku leik í DHL-höllinni næst.

Einmitt. Þú og þínir menn búa yfir mikilli reynslu og allt það…þetta er ekkert búið…

Neinei, nú erum við bara í þeirri stöðu að vera 2-1 undir og þurfum að vinna næsta leik. Þessi sería hefur verið öll þannig að næsti leikur er mikilvægasti leikurinn þannig að það heldur bara þannig áfram.

Sagði Finnur, næsti leikur sá mikilvægasti, eins og gengur yfirleitt, og körfuboltaaðdáendur bíða bara spenntir!

Fréttir
- Auglýsing -