Finnur Freyr Stefánsson þjálfari KR tapaði í fyrsta skipti á þjálfaraferli sínum með meistaraflokk karla tveimur leikjum í röð á dögunum. Tap KR gegn Grindavík síðastliðið fimmtudagskvöld var 172. leikur Finns sem þjálfari KR í mótsleikjum KKÍ.
Finnur hefur unnið 143 leiki af þessum 172 sem gerir rúmlega 83% sigurhlutfall í deild og bikar á fjórum tímabilum. Auk þess eru þrír íslandsmeistaratitlar og tveir bikarmeistaratitlar að baki á þessum árum og getur hann tryggt þann fjórða með sigri í oddaleik liðanna í kvöld.
Það verður að teljast ansi góður árangur að tapa ekki tveimur leikjum í röð í deild og bikar í gegnum nærri fjögur tímabil í röð. Á fjórum tímabilum hefur KR tapað 29 leikjum allt í allt eða 18% leikja sinna en engin þeirra hefur komið í röð fyrr en nú. Óþarft er að taka það fram að Finnur hefur því aldrei tapað þremur leikjum í röð en það gæti gerst í kvöld.
Tekið er í myndina leikir í öllum keppnum KKÍ: Íslandsmót, bikarkeppni, meistarakeppni og fyrirtækjabikar. KR tekur á móti Grindavík í leik fimm í úrslitaeinvígi liðanna um íslandsmeistaratitilinn í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:15 og fer miðasala fram á www.kr.is/midasala. Búist er við að uppselt verði á leikinn og því er ljóst að fólk þarf að mæta tímanlega á völlinn.