Poweradebikarúrslitin fara fram í Laugardalshöll þann 21. febrúar næstkomandi. Í kvennaflokki eigast við grannaliðin Keflavík og Grindavík en í karlaflokki mætast KR og Stjarnan. Aðeins einn nýliði á þjálfarastól mætir í Höllina þetta árið en það er Finnur Freyr Stefánsson þjálfari KR sem í fyrsta sinn mun stýra meistaraflokki karla í bikarúrslitaleik í Höllinni.
Hjá kvennaliði Keflavíkur er margreyndur Sigurður Ingimundarson í brúnni en á tíma var hans annað heimilisfang í Laugardalshöll og þá hefur Sverrir Þór Sverrisson þjálfari kvennaliðs Grindavíkur einnig þjálfað til úrslita í bikarnum. Hrafn Kristjánsson þjálfari Stjörnunnar stýrði KR í Laugardalshöll svo það setur Finn einan sem nýliða á þjálfarastól þetta árið.
Sigurður Ingimundarson hefur þrívegis gert karlalið Keflavíkur að bikarmeisturum (1997, 2003, 2012) og er sigursælasti þjálfarinn í Laugardalshöll í kvennaflokki þar sem hann hefur fimm sinnum gert kvennalið Keflavíkur að bikarmeisturum (1993, 1994, 1995, 1996 og 2013). Kappinn er því með átta bikarmeistaratitla undir beltinu og á höttunum eftir þeim níunda!
Sverrir Þór Sverrisson gerði kvennalið Njarðvíkur að bikarmeisturum árið 2012 og karlalið Grindavíkur árið 2014 og þá gerði Hrafn Kristjánsson karlalið KR að bikarmeisturum 2011.
Tekst Finni Frey að komast í hóp sigurþjálfaranna sem farið hafa í Höllina… sjáum hvað setur 21. febrúar!



