Andri Þór Kristinsson verður ekki með Blikakonur á næstu leiktíð en hann var við stjórnartaumana hjá ungu og efnilegu liði þar sem unnusta hans var einnig í leikmannahópnum. Andri er þúsundþjálasmiður enda stjórinn á Leikbrot.is en þjálfun á hug hans allan. Karfan.is ræddi við Andra um Blikatímann en Andri ætlar sér áfram í þjálfun þó leiðir skilji við Blika að sinni.
Andri nú segir þú skilið við Blikakonur og svo virðist sem þú gangir frá flottu starfi hjá klúbbnum þó ungt og efnilegt liðið hafi mátt fella sig við að falla í 1. deild:
Þetta voru fjögur góð ár í Blikum. Upp og niður, já það er rétt en þetta er lengri saga en svo. Þarna voru sex 15 ára stelpur í upphafi en núna eru þarna frambærileg lið í öllum þremur elstu flokkunum og meistaraflokkslið hlaðið leikmönnum með úrvalsdeildar reynslu. Mesti árangurinn voru þó sigrarnir sem sem náðust í uppbyggingu á prógramminu þarna í Smáranum og uppskeran er mikill afrekskúltur sem veitir starfinu mikinn meðbyr. Þarna er nú þegar einn besti unglingaflokkur landsins þannig að stelpurnar þurfa bara að halda gleðinni því ef þær halda saman þá er framtíðin þeirra og mér kæmi ekkert á óvart að þær leiki í úrvalsdeild fyrr en flesta grunar.
Þetta tímabil sem er að klárast, var rosalega mikið „Næstum því“ tímabil hjá ykkur, hvað vantaði uppá, var það reynsla?
Mikið “næstum því” tímabil já enda margir leikir sem “næstum því” unnust. Dómar sem “næstum því” voru dæmdir og skot sem “næstum því” fóru ofan í. Okkur tókst samt að eiga hrikalega skemmtilegt tímablil. Margar þarna sem hafði varla dreymt um að leika gegn þessum hetjum öllum og við nutum þess í botn. Okkur tókst að leggja úrvaldsdeildarlið að velli í fyrsta sinn og sum þarna oftar en einu sinni þannig að eftir situr gleði og tilhlökkun að komast í gang að nýju.
Þú ert að segja skilið við kvennalið Blika, Hvað tekur við, þú ætlar þér áfram í þjálfun ekki satt?
Jú ég er hættur hjá Blikum í bili í það minnsta. Núna er ég bara að ganga frá lausum endum og að þakka fyrir mig þarna. Ég fékk að vinna með mörgu góðu fólki og fékk tækifæri til að vaxa sem karakter og þjálfari. Leikmennirnir þarna eru frábærir og mig grunar að þó ég sé að hætta þarna þá sé liðið bara rétt í startholunum ennþá og sá sem tekur við þeim er í öfundsverðu hlutverki, ekki spurning.
Ég verð áfram að þjálfa. Ég er að klára 16. árið mitt í þjálfun og mér finnst ég eflast með hverju árinu. Sumt kemur bara af sjálfu sér kannski með aldrinum bara en svo er maður alltaf að læra af fólkinu í kringum mann hverju sinni. Þetta er þolinmæðisvinna að kenna og að vinna með fólki en mjög gefandi. Ég hafði hugsað mér að reyna fyrir mér erlendis en mér sýnist verða amk einhver bið á því en eins og staðan er núna þá veit ég ekkert hvar ég verð en mig grunar að það verði með góðu fólki.
Hvernig gengur það með Leikbrot.is?
Leikbrot.is mallar og það er gaman að sjá hvað körfuboltinn er fyrirferðamikill á netinu. Allir að deila myndböndum og spennan oft mikil. Ég hef komist sjaldnar á leiki undanfarið enda með æfingar nánast öll kvöld en Karl West hefur haldið þessu gangandi en við þurfum að fara fá fleiri inn með okkur til að geta gert þetta almennilega eins og maður segir.
Nú unnið þið Jóhanna unnusta þín saman, þú þjálfaðir hana með Blikaliðinu í vetur – hvernig gekk það samstarf fyrir sig?
Samstarf okkar Jóhönnu hefur gengið fáránlega vel. Stelpurnar í liðinu fögnuðu henni auðvitað gríðarlega þegar hún ákvað að taka slaginn með okkur síðasta sumar. Þvílíkt hugrekki hjá henni að ganga til liðs við nýliðana og það frá einu besta liði deildarinnar. Það kunnu allir í Smáranum vel að meta það. Það að hún væri kærasta mín var aldrei neinn dramapunktur enda lítið um drama í þessu liði almennt. Jóhönnu fylgir mikil orka og gleði þannig að þetta gekk eins og í sögu allt saman og auðvitað mjög skemmtilegt fyrir okkur að fá smá meiri tíma saman svona í “lok” vinnudagsins í íþróttasalnum.
Mynd/ Karl West



