spot_img
HomeFréttirFinnar meistarar: Skutu Íslendinga í kaf

Finnar meistarar: Skutu Íslendinga í kaf

 
Annað silfur í hús hjá íslensku karlalandsliði en rétt í þessu var U16 ára karlalandslið Íslands að tapa stórt gegn Finnum í úrslitaleik Norðurlandamótsins. Lokatölur voru 67-84 Finnlandi í vil. Maciej Baginski var stigahæstur í íslenska liðnu í dag með 23 stig, 6 fráköst og 4 stolna bolta. Bæði U18 ára og U16 ára landslið Íslands í karlaflokki máttu því sætta sig við silfur á Norðurlandamótinu eftir stórt tap í úrslitaleiknum.
Finnar voru sprækari í upphafi leiks og skoruðu fyrstu sex stigin áður en Oddur Rúnar Kristjánsson kom okkar mönnum á blað. Maciej Baginski var sem fyrr illur viðureignar og keyrði miskunnarlaust á finnsku körfuna en fékk þrjár villur strax í fyrsta leikhluta.
 
Í stöðunni 4-12 Finnlandi í vil rönkuðu Íslendingar við sér. Þorgeir Blöndal minnkaði muninn í 11-16 eftir sóknarfrákast og snöggtum síðar komst Ísland yfir og leiddi 19-17 að loknum fyrsta leikhluta. Rándýr villa hjá Maciej Baginski kom þegar 1,1 sekúnda var eftir af öðrum leikhluta og var það hans þriðja villa.
 
Rétt eins og í fyrsta leikhluta voru Finnar á skotskónum í upphafi annars og gerðu sjö stig í röð áður en Ísland komst á blað. Erlendur Stefánsson gerði fyrstu stig íslenska liðsins með þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 22-24. Íslenska liðið var að pressa og falla niður í svæðisvörn en Finnar voru að hitta vel lungann úr fyrri hálfleik.
 
Þrátt fyrir að vera með þrjár villur lék Maciej Baginski bróðurpartinn af öðrum leikhluta og það átti eftir að taka sinn toll. Þegar mínúta var til leiksloka fékk Baginski sína fjórðu villu sem var sóknarvilla, bæði þungur og rangur dómur. Finnar nýttu síðustu mínútuna í brotthvarfi Baginski og juku muninn í 36-46 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
 
Maciej Baginski og Oddur Rúnar Kristjánsson voru báðir með 13 stig í hálfleik en aðrir voru ekki nægilega duglegir við að láta á sér kræla í sókninni.
 
Dagur Kár opnaði þriðja leikhluta fyrir Ísland með þriggja stiga körfu en Finnar voru í bílstjórasætinu og leiddu 45-55 þegar Ingi Þór tók leikhlé fyrir íslenska liðið. Vörn íslenska liðsins var ekki upp á marga fiska í þriðja leikhluta og nokkuð vantaði upp á baráttuþrek hópsins og var mótlætið farið að fara í skapið á mönnum þegar seig á leikhlutann. Finnar leiddu að honum loknum 49-64.
 
Þrír ferskir þristar hrundu inn hjá Finnum í upphafi fjórða leikhluta og Finnar komust í 53-75 og um sjö mínútur til leiksloka. Ísland átti sér aldrei viðreisnar von í fjórða leikhluta og því höfðu Finnar að lokum þægilegan 67-84 sigur.
 
Maciej Baginski gerði 23 stig, tók 6 fráköst og stað 4 boltum í leiknum. Oddur Rúnar Kristjánsson gerði 18 stig og tók 5 fráköst og þá var Dagur Kár Jónsson með 10 stig. Þorgeir Blöndal komst vel frá sínu með 9 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar og þá lék Hugi Hólm ágætlega þrátt fyrir að skora ekki í leiknum.
 
Einn sterkasta vopn Íslands á mótinu, þriggja stiga skotin, vildu ekki niður þegar mest á reyndi en Finnar að sama skapi skutu okkur í kaf með 10 þrista í 25 tilraunum og þorri þeirra kom í síðari hálfleik þegar Finnar voru að stinga af.
 
 
Leikir Íslands á mótinu:
 
Ísland 113 – 64 Noregur
Ísland 99 – 85 Finnland
Ísland 70 – 80 Svíþjóð
Ísland 84 – 69 Danmörk
 
Úrslitaleikurinn:
 
Ísland 67–84 Finnland

Í mótslok voru svo Maciej Baginski og Dagur Kár Jónsson valdir í úrvalslið mótsins. Þá var Maciej einnig valinn besti maður úrslitaleiksins.

Ingi Þór Steinþórsson var stoltur af sínum mönnum í leikslok:

,,Ég er ákaflega stoltur af strákunum og árangrinum sem þeir náðu. Ég átti ekki von á því áður en við komum hingað út að við færum í úrslitaleikinn. Í dag snéru Finnarnir taflinu við í höndunum á okkur og léku í dag eins og við gerðum gegn þeim í leiknum í riðlinum og því fór sem fór.“

Fréttir
- Auglýsing -