spot_img
HomeFréttirFín byrjun Laugdæla dugði ekki til

Fín byrjun Laugdæla dugði ekki til

 
Laugdælir tóku á móti liði Fjölnis úr Grafarvogi í 1. deild kvenna í gærkvöld. Leikurinn var jafn og spennandi framan af þar sem Laugdælir leiddu eftir fyrsta leikhluta 17 – 14 þökk sé góðum leik Salbjargar Sævarsdóttur og Elmu Jóhannsdóttur. Þær stöllur ásamt Margréti Harðardóttur virtust ætla að gera út um leikinn strax í byrjun annars leikhluta og komu Laugdælum í 24 – 14 með góðum leik.
En lengra náði sælan ekki að þessu sinni þrátt fyrir góða baráttu. Fjölnir tók leikhlé eftir 3 mín í öðrum leikhluta og endurskipulagði varnarleik sinn. Þetta skilaði þeim 21 stigi í röð þar til ein mínúta lifði af hálfleiknum að Laugdælir settu niður þrjú stig. Nú var Fjölnisliðið komið í gang og sjálfstraust heimastúlkna rokið út í veður og vind. Þriðji hluti leiksins endaði 34 – 55 fyrir Fjölni sem nú voru komnar með auto pilotinn á og urðu ekki stöðvaðar.
 
Lokatölur urðu síðan 45-76 og ljóst að Laugdælir þurfa mikið að bæta eigi þær að ná sigri í bikarnum á laugardag. Atkvæðamestar heimastúlkna voru Salbjörg með 15 stig og 15 fráköst og Elma með 15 stig. Í liði Fjölnis Settu þær Bergdís Ragnarsdóttir og Bergþóra Tómasdóttir 18 stig hvor.
 
 
Texti: Kári Jónsson
Ljósmyndir: Karl West Karlsson
Fréttir
- Auglýsing -