Keflvíkingar eru Íslandsmeistarar í Domino´s deild kvenna 2013. Keflavík lagði KR í kvöld í fjórðu úrslitaviðureign liðanna í DHL Höllinni, lokatölur 70-82 Keflavík í vil og einvígið 3-1. Pálína María Gunnlaugsdóttir var valin besti leikmaður úrslitakeppninnar og undirstrikaði þá útnefningu með því að skora í kvöld 30 stig, taka 7 fráköst, gefa 4 stoðsendingar og stela tveimur boltum.
Þetta var í fimmtánda sinn sem Keflavík verður Íslandsmeistari og í ellefta sinn sem liðið verður Íslandsmeistari eftir úrslitakeppni. Magnaður vetur að baki hjá Keflvíkingum sem eru Íslandsmeistarar, bikarmeistarar og deildarmeistarar.
Í leik kvöldsins byrjuðu Keflvíkingar betur og komust í 9-4 eftir þrist frá Birnu Valgarðsdóttur en þá hrukku KR-ingar í gang, Sigrún Sjöfn setti fimm stig í röð og liðið leiddi 20-16 að loknum fyrsta leikhluta þrátt fyrir að hafa aðeins fengið dæmda á sig eina villu fyrstu tíu mínúturnar.
Shannon McCallum kom KR í 22-16 í upphafi annars leikhluta og þar með var hún komin með 10 stig á 11 mínútum, eða einu stigi meira en hún gerði á tæpum 38 mínútum úti í Keflavík í síðasta leik! Keflvíkingar náðu að jafna metin 25-25 en röndóttar slitu sig jafnharðan frá, Guðrún Gróa gerði fimm stig í röð og undir lok annars leikhluta gerðust reynsluboltarnir í Keflavík sekir um einbeitingarskort og fóru illa með boltann, KR þakkaði fyrir sig með 4-0 dembu og leiddu 38-34 í hálfleik.
Nokkrir líflegir sprettir í fyrri hálfleik og Keflvíkingar með McCallum í strangri gæslu í sinni box-1 vörn en það aftraði henni þó ekki frá því að vera með 19 stig og 5 fráköst. Pálína Gunnlaugsdóttir var svo með 14 stig og 2 stoðsendingar hjá Keflavík í hálfleik.
Skotnýting liðanna í hálfleik:
KR: Tveggja 38,5% – þriggja 33,3% og víti 81,8%
Keflavík: Tveggja 36,8% – þriggja 25% og víti 91,7%
Pálína Gunnlaugsdóttir setti tóninn fyrir Keflavík í upphafi síðari hálfleiks með þriggja stiga körfu sem minnkaði muninn í 38-37. Keflvíkingar voru mun grimmari framan af og jöfnuðu fljótt 42-42. Skammt inni í síðari hálfleik seig á ógæfuhliðina hjá röndóttum og sögðu þær farir sínar ekki sléttar, McCallum fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu. Guðrún Gróa fór svo af velli með áverka í andliti og lék ekki meira í þriðja leikhluta og þegar hlúð var að henni fékk bekkurinn hjá KR dæmt á sig tæknivillu. Skömmu eftir að leikur hófst á ný fékk Shannon MacCallum dæmda á sig tæknivillu og hér höfðu KR-ingar misst alla þolinmæði fyrir dómurum leiksins og voru einfaldlega æfir.
Keflavík gerði nú ekki vel að hámarka þennan meðbyr og breyttu stöðunni aðeins í 49-51 en leiddu 53-56 fyrir fjórða og síðasta hluta eftir að hafa unnið þriðja leikhluta 15-22. Hann var ekki áferðarfallegur þriðji leikhluti og eftir því sem við komumst næst missti Guðrún Gróa tönn við höggið á andlitið og fylgdist með af bekknum það sem eftir lifði leiks.
Í upphafi fjórða leikhluta jafnaði Helga Einarsdóttir leikinn fyrir KR í 58-58 með tveimur vítaskotum og KR komst svo yfir í stöðunni 65-64 og unnu fyrstu fimm mínúturnar í fjórða leikhluta 12-8. Pálína Gunnlaugsdóttir sem hafði farið vel af stað í síðari hálfleik lét aftur á sér kræla í fjórða þegar hún kom Keflavík í 65-67 með þriggja stiga körfu og kveikti í Keflvíkingum. Ína María átti sprækar rispur á köflum fyrir KR en Shannon vitaskuld dró vagninn sóknarlega.
Sniðskot sem fóru forgörðum og vöntun á að passa betur upp á boltann gætu verið vel til þess fallin að fá KR-inga til að naga sig í handarbökin í sumar því Keflvíkingar gengu á lagið, Bryndís Guðmundsdóttir kom þeim í 65-72 með körfu og villu að auki þar sem vítið vildi niður og eftir það var ekki litið aftur. Keflavík kláraði leikinn 70-82 og fögnuðu gríðarlega um leið og lokaflautið gall…Íslandsmeistarar 2013!
KR-Keflavík 70-82 (20-16, 18-18, 15-22, 17-26)
KR: Shannon McCallum 33/11 fráköst, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 11, Helga Einarsdóttir 8/11 fráköst, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 7/4 fráköst, Björg Guðrún Einarsdóttir 6, Ína María Einarsdóttir 5, Anna María Ævarsdóttir 0, Sara Mjöll Magnúsdóttir 0, Sólrún Sæmundsdóttir 0, Rannveig Ólafsdóttir 0, Hrafnhildur Sif Sævarsdóttir 0, Hafrún Hálfdánardóttir 0.
Keflavík: Pálína Gunnlaugsdóttir 30/7 fráköst, Jessica Ann Jenkins 22/6 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 13/5 fráköst, Ingunn Embla Kristínardóttir 8/7 fráköst, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 7/12 fráköst, Sandra Lind Þrastardóttir 2, Lovísa Falsdóttir 0, Sara Rún Hinriksdóttir 0, Telma Lind Ásgeirsdóttir 0, Katrín Fríða Jóhannsdóttir 0, Aníta Eva Viðarsdóttir 0, Ingibjörg Jakobsdóttir 0.
Byrjunarliðin:
KR: Björg Guðrún Einarsdóttir, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, Shannon McCallum, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og Helga Einarsdóttir.
Keflavík: Jessica Jenkins, Pálína Gunnlaugsdóttir, Sara Rún Hinriksdóttir, Birna Valgarðsdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir.
Dómarar leiksins: Rögnvaldur Hreiðarsson og Davíð Kr. Hreiðarsson. Eftirlitsmaður: Pétur Hrafn Sigurðsson.
Umfjöllun/ [email protected]
Mynd/ Eva Björk



