spot_img
HomeFréttirFimmta tap Valsmanna í röð

Fimmta tap Valsmanna í röð

Valsmenn töpuðu sínum fimmta leik í röð í Lengjubikarnum í gærkvöldi þegar nýliðarnir í Domino´s deildinni tóku á móti ríkjandi Íslandsmeisturum síðustu tveggja ára, Grindavík. Lokatölur voru 72-101 Grindavík í vil og eru Valsmenn úr leik í keppninni. Keflvíkingar eru sigurvegarar í riðlinum en Grindavík og Tindastóll bítast nú um það hvort liðið komist áfram með Keflavík. Ef Grindavík tapar síðasta leik og Tindastóll vinnur þá fer Tindastóll áfram í keppninni á innbyrðisviðureign gegn Grindavík. 
En okkar maður í Vodafonehöllinni lét sig ekki vanta í gær og sendi inn nokkrar línur:
 
Fyrsti fjórðungur.
Grindavík byrjar betur og skorar fyrstu sex stigin en Valsmönnum eru afar mislagðar hendur í sókninni og komast loks á blað eftir tvær og hálfa mínútu. Valsmenn brjóta mikið og Grindavík er komið með skotrétt eftir þrjár mínútur! Staðan 4-9 fyrir Grindavík. Ólafur Ólafsson fær dæmda á sig óíþróttamannslega villi, Valsmenn nýta vítin og skora og staðan 8-9, þá taka Grindvíkingar smá kipp og Valsmenn taka leikhlé þegar tæpar fimm mínútur eru eftir og staðan 10-18. Grindvíkingar skora nánast að vild og auka muninn í 13-30 þegar tvær mínútur eru eftir. Grindavík mun sterkari aðilinn í fjórðungnum og leiða 19-36.
 
Annar fjórðungur.
Valsmenn gefa aðeins meiri kraft í vörnina og byrja fjórðunginn 6-2 en siðan skiptast liðin á að skora og staðan 27-42 þegar þrjár mínútur eru liðnar. Valsmenn byrja að stytta sóknir sínar en eftir nokkrar þriggja stiga körfur í röð frá Grindavík fer munurinn í 22 stig 30-52 þegar þrjár mínútur eru eftir. Valsmönnum tekst aðeins að minnka muninn síðustu mínutur fjórðungsins.
 
Staðan í hálfleik 38-56.
 
Þriðji fjórðungur.
Mikil bárátta einkennir byrjun seinni hálfleiks og Valsmenn koma mun ákveðnari til leiks, staðan eftir fjórar mínutur 47-63 en Valsmenn eru leiddir áfram af Chris Woods sem er kominn með 21 stig. Jafnræði er með liðunum og mikið um mistök beggja liða, munurinn er að rokka milli 15 og 20 stiga en sigur Grindvíkinga virðist ekki í hættu og staðan fyrir lokafjórðunginn 56-80.
 
Fjórði fjórðungur
Barningurinn heldur áfram og mikill hraði einkennir leikinn og munurinn helst svipaður, staðan 63-89 þegar fjórar mínútur eru liðnar og Grindavík komið með skotrétt. Grindavík nær síðan 32 stiga mun 63-95 og Valur tekur leikhlé þegar fjórar mínútur eru eftir. Leikurinn fjarar út og Grindvíkingar vinna verðskuldaðan sigur. Gaman var að sjá að þjálfarar liðanna gáfu öllum leikmönnum sínum tækifæri til að spila, lokatölur 72-101 fyrir Grindavík.
 
 
Hannes Birgir Hjálmarsson / Vodafoneahöllin að Hlíðarenda
  
Fréttir
- Auglýsing -