spot_img
HomeFréttirFimmfaldur Bikarmeistari

Fimmfaldur Bikarmeistari

16:09 

{mosimage}

 

 

Körfuknattleikskonan Guðbjörg Sverrisdóttir er fyrst íslenskra kvenna til þess að vera bikarhafi allra bikarmeistaratitla sem í boði eru á vegum Körfuknattleikssambands Íslands. Guðbjörg er fimmfaldur bikarmeistari og um síðustu helgi vann hún til fjögurra bikartitla. Guðbjörg var einnig í bikarmeistaraliði meistaraflokks Hauka sem lagði Keflavík í stórskemmtilegum úrslitaleik í Laugardalshöll þann 17. febrúar síðastliðinn. Guðbjörg er í 9. bekk og æfir 16-17 sinnum á viku. Víkurfréttir náðu tali af Guðbjörgu sem segir þetta ekki hægt nema með dyggri aðstoð sinna nánustu.

 

,,Það er meira stressandi að taka þátt í bikarkeppni heldur en t.d. deildarleikjum, í bikarnum er bara einn séns og þá má ekkert út af bregða,” sagði Guðbjörg og ljóst að hún hefur stáltaugar enda búin að sanna það með fimm bikarmedalíur um hálsinn. Um síðustu helgi fór fram bikarhelgi yngri flokka í körfunni þar sem Guðbjörg vann til fjögurra titla. Fyrst varð hún bikarmeistari með 10. flokki stúlkna á laugardag og síðar sama dag varð hún bikarmeistari í Stúlknaflokki. Guðbjörg var valin besti maður leiksins í 10. flokki með 36 stig, 12 stolna bolta og 11 fráköst. Sunnudagurinn var ekki síðri hjá Guðbjörgu þar sem hún varð bikarmeistari með 9. flokki og gerði hún 26 stig í leiknum og tók 15 fráköst og valin besti maður leiksins. Síðar á sunnudeginum varð Guðbjörg svo bikarmeistari með unglingaflokki Hauka þegar þær lögðu Keflavík í spennuleik.

 

Frábær árangur hjá þessari ungu Haukastúlku sem segir þetta ekki hægt nema með dyggri aðstoð sinna nánustu. ,,Ég fæ mikla hjálp frá fólkinu í kringum mig og þá aðallega frá foreldrum mínum en líka kennurum og þjálfurum mínum í Haukum og fleirum. Ég er vel skipulögð og gæti þetta ekki öðruvísi,” sagði Guðbjörg sem hóf að æfa körfubolta aðeins 6 ára gömul þegar hún mætti á sínar fyrstu æfingar þar sem faðir hennar var þjálfari hjá Haukum. Þess má geta að eldri systir Guðbjargar kann sitt hvað fyrir sér í körfubolta svo það skyldi engan undra þegar systurnar Helena og Guðbjörg mæta saman á leikvöllinn í íslensku landsliðstreyjunum.

 

Frétt og mynd úr Víkurfréttum í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi – www.vikurfrettir.is

Fréttir
- Auglýsing -