spot_img
HomeFréttirFimm í röð hjá Lakers: Wall á ný með Wizards

Fimm í röð hjá Lakers: Wall á ný með Wizards

 
LA Lakers unnu sinn fimmta deildarsigur í röð í nótt þegar liðið lagði Chicago Bulls 98-91. Þá náðu Washington Wizards að landa sigri eftir framlengda viðureign gegn Philadelphia 76ers. John Wall var með Wizards á ný eftir meiðsli og kom með 25 stig af bekknum inn í liðið. Wall og Blake Griffin hjá LA Clippers hafa verið fyrirferðamiklir í upphafi tímabils og þykja líklegir sem nýliðar ársins.
Shannon Brown og Lamar Odom voru stigahæstir í liði Lakers í nótt báðir með 21 stig en Derrick Rose fór fyrir Bulls með 30 stig og 8 fráköst. Eftir sigurinn í nótt eru Lakers 13-2 í 2. sæti vesturstrandarinnar en sjóðheitir San Antonio Spurs eru 12-1 í 1. sætinu. Chicago eru í 3. sæti austurstrandarinnar 7-5.
 
Washington Wizards fengu hörkuleik gegn Philadelphia 76ers í nótt þar sem John Wall missti af síðustu fjórum leikjum Wizards sökum meiðsla. Wall var með í nótt og lét fyrir sér finna. Elton Brand var hent út úr húsi í liði 76ers fyrir gróft brot á JaVale McGee í fjórða leikhluta, stórfurðulegar gjörðir hjá reyndum leikmanni þegar allt var í járnum! Brotið var á John Wall í þriggja stiga skoti þegar 3,5 sekúndur voru til leiksloka og nýliðinn stóðst pressuna á línunni og jafnaði metin í 106-106 svo framlengja varð leikinn. 76ers áttu síðustu sókn framlengingarinnar en tókst ekki að jafna svo Wizards fóru með 116-114 sigur af hólmi. John Wall var stigahæstur hjá Wizards með 25 stig og 6 fráköst af bekknum en Andre Iguo var með 23 stig, 11 fráköst og 8 stoðsendingar í liði 76ers.
 
Önnur úrslit næturinnar:
 
Indiana 100-89 Cleveland
New Jersey 107-101 Atlanta
New York 110-107 Charlotte
Dallas 88-84 Detroit
 
Mynd/ Nýliðinn John Wall er kominn aftur á kreik með Wizards og var lykilmaður í sigri liðsins eftir framlengingu gegn 76ers.
 
Fréttir
- Auglýsing -