spot_img
HomeFréttirFimm heimamenn skrifa undir hjá FSu

Fimm heimamenn skrifa undir hjá FSu

FSu sendi frá sér fréttatilkynningu í gærkvöldi þar sem tilkynnt var að fimm leikmenn hefðu skrifað undir hjá liðinu fyrir næsta tímabil. Þetta eru þeir Ari Gylfason, Hlynur Hreinsson, Jörundur Snær Hjartarson, Svavar Ingi Stefánsson og Hilmar Ægir Ómarsson. Allir eru þeir uppaldir að sögn forsvarsmanna FSu en félagið endaði í 7. sæti 1. deildarinnar á síðasta tímabili og ætla sér greinilega stærri hluti að ári. 

 

Fréttatilkynningu FSu má finna í heild sinni hér að neðan:

 

Fimm heimastrákar hafa skrifað undir samninga þess efnis að leika áfram með FSU. Fjórir gerðu tveggja ára samning en einn samning til eins árs.

 

 

Jörundur Snær Hjartarson, 19 ára framherji, sem alinn er upp í Iðu frá blautu barnsbeini. Jörundur dvaldi í Frakklandi á nýliðnu keppnistímabili en er kominn heim aftur og mun styrkja hópinn verulega. Hann er líkamlega sterkur og hefur í gegn um tíðina verði með öflugustu leikmönnum landsins í sínum árgangi og spilað með yngri landsliðum. Það er fagnaðarefni að fá Jörra aftur heim.

 

Svavar Ingi Stefánsson, 23 ára framherji/miðherji, sem alið hefur allan sinn aldur í herbúðum FSU. Svavar hefur, þrátt fyrir ungan aldur, um árabil verið mikilvægur hlekkur og hluti af kjarna FSU-liðsins. Hann skilaði á nýliðnu tímabili 7,3 stigum og 3,7 fráköstum að meðaltali á 20:31 mínútu fyrir liðið og ætlar sér meira á komandi tímabili, enda innistæða fyrir því.

 

Ari Gylfason, 27 ára skotbakvörður, sem lék á Selfossi upp alla yngri flokkana, var í Akademíu FSu en hleypti einnig heimdraganum. Hann var skiptinemi í Bandaríkjum Norður Ameríku á síðast ári í High School og lék körfubolta með skólaliðinu við góðan orðstír. Heimkominn lék hann með Þór Þorlákshöfn og KFÍ áður en hann sneri aftur á heimaslóðir og hefur síðustu 4 árin verið burðarás liðsins. Ari var valinn besti leikmaður 1. deildar karla fyrir tveimur árum, þegar FSU vann sér sæti í Úrvalsdeild, en hefur frá því haustið 2016 glímt við meiðsli í öxl sem hann er nú loks að ná sér almennilega af. Ari spilaði rúmar 33 mínútur að meðaltali á síðasta tímabili, skoraði 14,7 stig, tók 5,6 fráköst og gaf 2 stoðsendingar.

 

Hlynur Hreinsson, 24 ára leikstjórnandi, hóf sinn körfuboltaferil ungur að árum á Selfossi en lék einnig með Snæfelli og KFÍ á unglingsárunum. Haustið 2015 gekk Hlynur aftur í raðir FSU og var koma hans tvímælalaust lykillinn að framþróun og velgengni liðsins það keppnistímabil – og úrvalsdeildarsætinu. Hlynur tók stórstígum framförum, enda fékk hann mikið traust og ábyrgð, sem hann þakkaði fyrir með stigvaxandi listsköpun við stjórnun sóknarleiks liðsins. Hann varð svo fyrir því áfalli að meiðast illa á undirbúningstímabilinu, í leik í Lengjubikarkeppni KKÍ, og þó hann hafi harkað af sér og spilað fram yfir áramót í úrvalsdeildinni tók það sinn toll og kom honum og liðinu í koll í vetur, því það var ekki fyrr en undir lok tímabils í vor að Hlynur var aftur farinn að geta leikið af einhverjum krafti nokkrar mínútur í leik, og sýna gamalkunna takta. Nú lítur þetta betur út og vonir standa til að í haust verði öll meiðsli að baki. Hlynur var með í 13 leikjum í vetur, spilaði 22 mín. að meðaltali, skoraði 9,2 stig, gaf 3 stoðsendingar, nýtti 46,3% tveggjastiga skota og 40,5% þriggjastigaskota sinna.

 

Hilmir Ægir Ómarsson, bráðum 19 ára skotbakvörður/framherji, er einn af þeim sem byrjuðu að æfa við stofnun félagsins árið 2005. Hann er því að hefja sitt 13. keppnisár fyrir FSU. Síðasta ár var sár vonbrigði fyrir Hilmi, því hann var meiddur í allan vetur og gat lítið sem ekkert æft, á sínu fyrsta ári í meistaraflokki þar sem tækifærið var sannarlega til staðar að sanna sig og stimpla sig inn sem lykilmaður. Hilmir er á batavegi og ætlar að nota sumarið vel til að koma sér í rétta gírinn fyrir komandi átök. Félagið væntir mikils af Hilmi, og ekki eru væntingar hans sjálfs minni.

 

Ekki þarf að taka fram hvílíkar gleðifréttir hér eru sagðar, fyrir félagið og stuðningsmenn þess. Það er sérlega ánægjulegt að þessir úrvalsdrengir haldi tryggð við félagið sitt, en það er ekki sjálfgefið eins og dæmin sanna. FSU-KARFA er stolt af sínum og bíður með óþreyju eftir fleiri leikmönnum upp úr yngriflokkastarfinu. Þeir verða ekki settir til hliðar þegar þar að kemur. Félagið leggur megináherslu á að gefa hinum ungu og upprennandi tækifæri. Þessi stefna var rækilega undirstrikuð á nýliðnu tímabili, þegar margir kornungir leikmenn, m.a. frá nágrannabyggðum, fengu margar mínútur og mikil tækifæri til að þroskast og bæta sig.

 

Frekari fréttir af leikmannamálum eru væntanlegar fljótlega – og ekki loku fyrir það skotið að þar verði á meðal fleiri heimamenn með hjartað á réttum stað.

Fréttir
- Auglýsing -