Næstkomandi laugardag hefst Heimsmeistaramótið í körfuknattleik og að þessu sinni fer það fram í Tyrklandi. Hægt verður að fylgjast ítarlega með gangi mótsins í máli og myndum hjá www.fiba.com en sjónvarpsútsendingar í beinni með íslenskum lýsendum verða engar! Nöturleg staðreynd þegar ein fjölmennasta og stærsta íþróttagreinin er annars vegar.Eftir ekki svo ítarlega eftirgrennslan hefur komið upp úr krafsinu að RÚV mun ekki sýna í beinni frá HM og eitthvað hefur staðið á svörum frá Stöð 2 en ef miðillinn ætlaði sér að sýna frá mótinu hefðu auglýsingar þess efnis væntanlega verið komnar í umferð en svo er ekki. Næst lá leiðin inn á borð hjá köppunum á Sport TV og þar kom í ljós að þeir ætluðu ekki að sýna beint frá mótinu og lái þeim hver sem vill en hafa verður hugfast að hróplega ósanngjarnt er að bera þann miðil saman við tvo fyrrgreinda. Það skal þó tekið fram að fyrirspurn var ekki send til ÍNN og tek ég mér það bessaleyfi að afskrifa beinar útsendingar fá HM af þeirra hálfu.
Ekki er svo að maður berji í borðið og krefjist beinna útsendinga frá stærstum hluta mótsins líkt og gert var með HM í karlaknattspyrnu fyrr í sumar. Því fer fjarri lagi en þegar stærsta körfuboltakeppni jarðkringlunnar fer fram hefði maður búist við að í það minnsta undanúrslit og úrslit yrðu sýnd í beinni útsendingu um heim allan.
Eflaust kostar það sinn skildinginn að sýna beint frá mótinu og ekki er laust við að menn beiti fyrir sig tuggum á borð við kostnað og örðugleikum við að finna samstarfsaðila í verkið. Gott og vel en ég get ímyndað mér að báðir miðlarnir RÚV og Stöð 2 myndu taka á sig tap til þess eins að sýna HM í knattspyrnu! Svo er annað og það myndi ég veðja á að hvorki RÚV né Stöð 2 hafi nokkurn tíman hugleitt þetta mál og aldrei farið af stað til að kanna kostnað eða mögulega samstarfsaðila. Grunsemd af minni hálfu, alls enginn sannleikur á ferðinni enda frekar glæfralegt að saka fólk um skipulagðan hallarekstur en svo mikill er áhuginn hjá íslensku sjónvarpsfólki á HM í knattspyrnu að nánast auðvelt verður að komast að þessari niðurstöðu.
Körfuknattleiksunnendur á Íslandi eru fjöldamargir og það er löngu orðið tímabært að allir fái þjónustu við hæfi! Sjálfur hef ég fylgst með knattspyrnu af áhuga frá blautu barnsbeini og verið dyggur stuðningsmaður handknattleikslandsliðsins alveg síðan apaskinnsgallar voru í tísku. Ég mun seint standa uppi á þaki fáklæddur og öskra mig hásann yfir því að körfubolti sé betri en einhver önnur íþrótt. Ég er fyrst og fremst íþróttaáhugamaður og sem slíkur svíður það að knattspyrna almennt og karlalandslið Íslands í handknattleik mergsjúgi upp allan sjónvarpstíma á kostnað annarra íþrótta og viðburða á borð við HM í körfuknattleik.
Jón Björn Ólafsson
Ritstjóri Karfan.is