spot_img
HomeFréttirFeta Heat í fótspor Celtics?

Feta Heat í fótspor Celtics?

Koma LeBron James og Chris Bosh til Miami Heat markar ákveðin tímamót í NBA þar sem aldrei hafa þrír svo hátt skrifaðir ungir leikmenn komið saman til að mynda meistarakjarna. Oft hafa lið slegið saman nokkrum gömlum stjörnum í þeirri von að reynsla og hungur í titla vegi upp á móti ellinni.
 
Skemmst er að minnast þegar Houston Rockets ákváðu rétt fyrir aldamót að fá til sín Charles Barkley og síðar Scottie Pippen í stað þess að leggja í uppbyggingu og LA Lakers sem fengu til sín Gary Payton og Karl Malone veturinn 2003-2004, og komust í úrslit þar sem liðið brann algerlega út.
 
Samansöfnun stórstjarna hefur þó stundum skilað árangri eins og lið Lakers og Boston sönnuðu á níunda áratugnum, og svo auðvitað meistaralið Celtics 2008.
 
Það var einstaklega vel heppnað famtak þar sem Danny Ainge og félagara á skrifstofunni hjá Boston sneru við glötuðu liði með því að fá til sín þá Kevin Garnett og Ray Allen, en létu í staðinn flesta sína efnilegustu menn.
 
Það sem þeir fengu í staðinn voru hins vegar reyndir leikmenn á hátindi ferils síns og allt að því helteknir af þrá yfir að vinna meistaratitil, sem sýndi sig svo í úrslitarimmunni gegn Lakers.
 
Talsverður munur er þó á stöðunni hjá Celtics sumarið 2007 og Miami í dag þar sem fyrir utan aldursmun á kjarna liðsins, áttu Celtics nokkra leikmenn sem blómstruðu með þríeykinu, það er þeir Rajon Rondo, Glen Davis og Kendrick Perkins.
 
Riley hefur ekki slíku að dreifa hjá Heat og fyrir utan það er Wade þegar kominn með meistaratitil á ferlinum og þeir James og Bosh eru fjarri því að vera örvæntingarfullir um að landa titli, rétt 25 og 26 ára.
 
Framhaldið mun ráðast af því hvernig Riley gengur að fylla upp í hópinn, og ekki síst að búa til lið út hópnum. Eric Spoelstra, þjálfari liðsins, þarf einnig að finna út hvernig má best nýta hæfileika leikmannanna þriggja, en staða hans sjálfs er einnig vafasöm því að Riley gæti ákveðið að reka hann og taka sjálfur við stjórn liðsins.
 
Hvernig sem fer er nokkuð víst að ekki verður nein lognmolla á Miami næstu árin.
Fréttir
- Auglýsing -