Tindastóll leiðir nú einvígið gegn Þór Þorlákshöfn 2-0 eftir 85-96 útisigur í Icelandic Glacial Höllinni í kvöld. Gott framlag úr mörgum áttum Skagfirðinga sem og grimmur varnarleikur var lykillinn að þessum sigri Tindastóls í Þorlákshöfn. Þórsarar unnu sig upp úr djúpri holu og minnkuðu muninn í þrjú stig en vantaði herslumuninn til að jafna, jafnvel stela leiknum. Þriðji leikur liðanna er í Síkinu á föstudag þar sem Tindastóll getur tryggt sér farseðilinn í undanúrslit eða Þór tryggt sér annan heimaleik.
Gestirnir úr Skagafirði renndu inn í Þorlákshöfn með látum og settu upp 3-11 byrjun. Varnarleikur Tindastóls var sterkur frá fyrstu mínútu og heimamenn máttu hafa vel fyrir stigunum. Darrin Govens tók það að sér fyrir Þórsara að hlaða upp á stigatöfluna með 13 stig í fyrsta leikhluta og staðan 18-18 eftir fyrstu tíu mínúturnar.
Í öðrum leikhluta kom til kasta Helg Freys Margeirssonar, hlaupið vel þrifið á leiðinni yfir heiðina og því ekkert annað en að demba byssunni í vinnu. Helgi gerði fimm fyrstu stig Tindastóls í öðrum leikhluta og samtals þrettán í leikhlutanum. Helgi var ekki einn um skotsýninguna því stóru strákarnir Dempsey og Svavar Atli buðu sjálfum sér í veisluna og gestirnir settu 28 stig yfir heimamenn þennan annan leikhluta.
Govens sem hafði verið beittur í fyrsta leikhluta var lítt sjáanlegur í öðrum en þá tók Tómas Heiðar við keflinu en þetta var fremur einstrengingslegt og erfitt gegn ákafri vörn gestanna sem leiddu 33-46 í hálfleik. Govens var með 13 stig hjá Þór í hálfleik, skoraði ekki stig í öðrum hluta og Tómas Heiðar var með 10. Hjá Tindastól var Helgi Freyr með 13 stig og Myron Dempsey með 9 stig og 5 fráköst en Dempsey átti eftir að hlaða vel yfir þessar tölur í síðari hálfleik. Helgi Freyr átti þó tilþrif fyrri hálfleiks með erfiðum flautuþrist sem söng í netinu. Sko, það er einhver svipur með skotunum hans og Kidda Gun (Kristinn Geir Friðriksson), þó Gun hafi mögulega dregið gikkinn nokkrum sentimetrum aftar þegar hann hlóð byssuna. Færið er alltaf fyrir hendi, eins og þessir kallar geti skotið óbreytt um allan völl.
Þriðji leikhluti var svona úrslitakeppnis-leikhlutinn, bæði lið með 29 stig á þessum tíu mínútum, enginn draumaleikhluti þjálfarans, sér í lagi ekki Spánverjans Israels Martins sem sá sína menn láta góða forystu byrja að molna. Tindastóll byrjaði mun betur og Dempsey skellti sér upp í þrist og jók muninn í 35-55. Vopnabúrið er óneitanlega myndarlegra hjá Skagfirðingum ef Dempsey ætlar að fara að skjóta 3-5 í þristum þessa úrslitakeppnina eins og hann gerði í kvöld.
Stólarnir fóru mest 23 stig upp í þriðja en Þórsarar náðu að minnka muninn niður í 13 stig, 62-75, þar sem Tómas Heiðar, Grétar og Govens fóru allir að skila betur fyrir heimamenn.
Undir lok þriðja höfðu heimamenn hótað því sem átti svo eftir að gerast, þægilegur munur gestanna hvarf smátt og smátt. Govens, Grétar og Tómas voru enn rísandi frá þriðja hluta og þar getur stemmningin oft kaffært margan andstæðinginn. Þegar þrjár mínútur lifðu leiks setti Nýtingar-Tómas niður svakalegan þrist og minnkaði muninn í 83-86. Lækna-Tómas og Tilfinninga-Tómas sem tröllriðið hafa landinu hefðu verið stoltir af nýjasta Tómasinum sínum þarna.
Þriggja stiga munur, stemmningin komin í Þórsara og nú læddist að manni sá grunur að nýliðarnir myndu byrja að skjálfa. Annað kom á daginn, eftir stemmnings-þristinn frá Nýtingar-Tómasi gerði Tindastóll 5-0 áhlaup og sleit sig frá að nýju og kláruðu Skagfirðingar svo 85-96.
Það verður vandasamt verkefni fyrir Þórsara að fara í Síkið og freista þess að tryggja sér amk annan heimaleik en að sama skapi verður leikur þrjú ekki síður hættulegur fyrir Stólana.
Lykil-maður leiksins: Myron Dempsey
Fimm leikmenn Tindastóls gerðu 12 stig eða meira í leiknum og Ingvi Rafn bætti við 8 stigum svo gott framlag hjá Stólunum í kvöld. Helgarnir Freyr og Rafn voru sterkir en Flake í villuvandræðum og hafði nokkuð hægt um sig. Ekki var það mikið síðra hjá Þórsurum framlagið, fjórir með 10 stig eða meira en úrræðaleysi í sóknaraðgerðum á of löngum köflum var þeim þungbært. Tindastóll leikur fastan bolta, það er ekkert að fara að breytast. Þórsarar unnu annan deildarleikinn á tímabilinu svo þeir þurfa ekki að finna upp neitt hjól, Síkið á föstudag ætti að verða ansi góð skemmtun!
Umfjöllun og myndir/ Jón Björn



