spot_img
HomeFréttirFerðast Haukar norður til að fara í sumarfrí?

Ferðast Haukar norður til að fara í sumarfrí?

Síðastliðið sumar héldu margir norður yfir heiðar til þess að næla sér í smá sólarglætu sökum nöturlegs tíðarfars hér fyrir sunnan svo það er ekki úr vegi að velta því fyrir sér hvort Haukar haldi í dag norður í land til að gera einmitt það, að fara í sumarfrí! Haukarnir mæta Tindastól í Síkinu í kvöld í þriðju viðureign liðanna í undanúrslitum Domino´s-deildar karla þar sem Tindastóll leiðir 2-0 og dugir sigur í kvöld til að komast í úrslit í fyrsta sinn síðan árið 2001.

 

Stólarnir höfðu afgerandi 94-64 sigur í fyrsta leik og mættu svo í Schenkerhöllina þar sem þeir voru við stýrið og lönduðu 86-74 sigri. Enn á ný eru Haukar því komnir í 0-2 stöðu og þeim hótað sumarfríi. Haukum tókst fyrst allra liða í 8-liða úrslitum þar sem vinna þarf þrjá leiki að snúa taflinu sér í hag á ný eftir að hafa lent 2-0 undir. Það var gegn Keflavík sem hafnaði í 6. sæti deildarkeppninnar.

Til þess að bjarga sér úr þessari klípu þurfa Haukarnir þrjá sigra í röð og tveir þeirra þurfa að koma í Síkinu…þar sem Grindavík einu liða hefur tekist að galdra fram sigur á tímabilinu. Fljótt á litið yrði 3-2 sigur Hauka í einvíginu álitið ansi myndarlegt afrek, hvort það sé innistæða fyrir því að leggja svo djarft undir skal ósagt látið. 

Viðureign liðanna hefst kl. 19:15 í kvöld og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Staðan í einvíginu: Tindastóll 2-0 Haukar

Fréttir
- Auglýsing -