spot_img
HomeFréttirFerðasaga Baldurs Más frá Toronto

Ferðasaga Baldurs Más frá Toronto

 
Baldur Már Stefánsson þjálfaði nýverið við körfuboltabúðir hjá Toronto Raptors. Hér að neðan kemur ferðasaga kappans.
Kl hálf 7 mánudaginn 25. júlí mætti ég í íþróttasal Humber College, á fyrsta degi Toronto Raptors basketball academy. Byrjað var á þjálfarafundi þar sem farið var yfir helstu atriði komandi viku. Flestir þjálfararnir höfðu þegar undað tvisvar en ég var nýlentur og fór svo að segja beint út í djúpu laugina.
 
Rétt fyrir kl 8 byrjuðu krakkarnir að streyma inn, fyrir hádegi var yngri hópurinn, 8-12 ára. Hópnum var skipt í 3 deildir eftir aldri en þær hétu red, black og silver. Svo var hverri deild skipt upp í 4 lið sem hvert samanstóð af um 10 krökkum. Flestir þjálfararnir höfðu sitt lið sem þeir sáu um, mitt lið var í elstu deildinni, eða silver division. Að sjálfsögðu skýrði ég liðið mitt Þór, en það vakti töluverða athygli að ég væri frá Íslandi og ég fékk margar spurningar um landið. Flestir voru með á hreinu að Ísland væri grænt og Grænland væri þakið ís.
 
Þegar innritun og liðaskipting var komin á hreint gengu liðin á milli stöðva. Hver þjálfari hafði sína stöð sem hann sá um út vikuna. 10 mínútur í senn af grunnatriðum sem voru svo tekin skref fyrir skref út vikuna. Ég sá um varnarstöðina, byrjaði á að kenna 3 atriði sem þau þurftu svo að þylja upp fyrir mig daglega – vita hvern maður á að dekka, ávallt vera á milli mannsins síns og körfunnar og svo að sjá bæði mann og bolta. Svo fórum við yfir varnarstöðu, fótavinnu, hreyfingar frá bolta og enduðum á að spila 1á1 þar sem varnarmaðurinn safnaði stigum.
 
Að stöðvunum loknum komu gestir dagsins, en þeir voru Muggsy Bogues fyrrverandi leikmaður Raptors og Charlotte Hornets og Jay Triano fyrrverandi þjálfari Raptors, kanadíska landsliðsins og einn af aðstoðarþjálfurum bandaríska landsliðsins. Þeir byrjuðu á að tala við hópinn og fylgdu þeim svo eftir gegnum daginn.
 
Eftir fyrirlesturinn fóru fóru deildirnar 3 hver á sinn stað sem var svo róterað. Einn hópur byrjaði í kennslustofu hjá coach Dilhon en hann var með daglega fyrirlestra um orð dagsins og var hreint úr sagt magnaður. Hef sjaldan séð nokkurn mann ná jafn vel til hóps í kennslustofu þar sem allir þurfa að sitja kyrrir. Annar hópur var í svokölluðu full court challenge sem samanstóð að mestu af alls konar leikjum með bolta. Þriðji hópurinn var svo að spila og Muggsy og Jay voru til aðstoðar. Ekki leiðinlegt að geta sagt frá því að Jay Triano hafi verið aðstoðarþjálfari hjá manni.
 
Helstu vonbrigðin hjá mér persónulega voru þó að það var tekið fram að við mættum ekki sitja fyrir á myndum með Muggsy sem var klárlega einn af þessum leikmönnum sem maður fylgdist með áður fyrr. En ekki var tími til að leyfa öllum að gera það og væri það einfaldlega ekki í boði. Hann var samt virkilega hress og ekki hægt annað en að bera virðingu fyrir manni sem náði að vera byrjunarliðs leikstjórnandi í NBA þrátt fyrir að vera aðeins 160 cm á hæð. Get ekki neitað að ég hafði gaman af því að spjalla við körfuboltamann sem er minni en ég sjálfur 😉
 
Þegar allir hóparnir höfðu klárað þessar 3 stöðvar var þeim safnað aftur saman og veitt voru verðlaun handa þeim sem þóttu hafa staðið sig best í sinni deild í að fylgja eftir orði dagsins, en fyrsta orðið var dedication. Allir fengu spjald með nafni dagsins og útskýringu á mikilvægi þess. Svo var nýtt orð á hverjum degi. Orðin voru dedication, responsability, education, attitude og motivation en saman mynda upphafsstafirnir orðið dream sem var yfirskrift búðanna. Eftir hádegið kom svo eldri hópurinn, 13-17 ára, og var fyrirkomulagið að mestu hið sama. Ég hafði mitt lið í elsta hópnum sem ég sá um út vikuna.
 
Þessu fyrirkomulagi var svo haldið að mestu út vikuna. Á öðrum degi var fyrrum leikmaður Raptors, Detroit Pistons og New York Knicks, Jerome "Junkyard dog" Williams. Hann talaði aðeins yfir hópnum og var svo aðallega í að leika við krakkana og sat fyrir á myndum með öllum liðunum. Gríðarlega hress og náði vel til krakkanna sem hvöttu hann áfram við að sýna troðslur.
 
Á miðvikudaginn var Jack Armstrong gestur dagsins en hann er núverandi kynnir Raptors liðsins og er fyrrverandi þjálfari kanadíska landsliðsins og Niagra Falls college. Hann hélt fyrirlestur um gildi menntunar, en education var orð dagsins.
 
Á fimmtudag kom svo Micah Norri, aðstoðarþjálfari Raptors liðsins. Hann var með atriði sem kallast Raptors impossible catch þar sem krakkarnir fengu að reyna að leika eftir atriði sem lukkudýr liðsins leikur. Hann byrjaði einfalt, henda boltanum upp í loftið og klappa þrisvar saman höndunum og grípa svo boltann áður en hann lenti. Svo bættist alltaf við og endað á að henda boltanum upp, klappa þrisvar, snerta gólfið, snúa sér í hring og grípa svo boltann fyrir aftan bak. Að því loknu tók hann yfir full court challenge og var með ýmsar hraðaupphlaupsæfingar.
 
Á föstudag var Alvin Williams gestur dagsins, en hann er fyrrverandi leikmaður Raptors og Portland TrailBlazers. Hann talaði yfir hópnum og gekk svo á milli í stöðvaþjálfuninni og hjálpaði til.
 
Þegar yngri krakkarnir kláruðu síðasta daginn var endað á leik milli þjálfaranna en hjá þeim eldri var leikur á milli þjálfara og úrvalsliðs búðanna. Svo voru veitt aðalverðlaun búðanna, dream verðlaunin. En í yngri deildinni var það strákur í mínu liði sem hlaut þau og verður gaman að fylgjast með hvað úr honum verður.
 
Í heildina var þetta var þetta töluverð upplifun. Mikið lagt uppúr að allt gengi hratt fyrir sig og það var aldrei dauður punktur. Var algerlega raddlaus eftir hvern einasta dag enda um 120 krakkar í salnum í einu og lætin eftir því. Yfirþjálfarinn Kerwin er alger orkubolti, gekk um með míkrófón og hélt uppi stemmningunni. Á milli allra stöðva tóku allir saman jumpstop, shotfake og jabstep með miklum látum. Geta iðkendanna var mjög misjöfn, nokkrir sem myndu teljast byrjendur og svo hins vegar nokkrir gríðarlega efnilegir krakkar.
 
Baldur Már Stefánsson
 
Mynd/Baldur með hópnum sínum ásamt Jerome "Junkyard dog" Williams
Fréttir
- Auglýsing -