Óhætt er að segja að EuroBasket 2017 sé brostið á með öllu sínu fjöri því í morgun hélt íslenska landsliðið út til Finnlands á sitt annað lokamót í röð! Liðið fékk veglega meðferð og glæsilegar móttökur í Leifsstöð í morgun og hópurinn vitaskuld reffilegur til fara í klæddur jakkafötum frá Herragarðinum. Nú renna öll vötn til þúsund vatna landsins Finnlands og ekki laust við að stuðningsmenn setji svip sinn á Leifsstöð næstu daga líkt og landsliðið gerði í morgun.
Karfan.is lét sig ekki vanta í Leifsstöð í morgun og náðum við þar tali af Elvari Má Friðrikssyni sem er á leið á sitt fyrsta lokamót og þá ræddum við einnig við Hauk Helga Pálsson sem var í íslenska liðinu 2015 í Berlín eins og mörgum ætti að vera minnisstætt.
Strax á fimmtudag er svo fyrsti leikur þegar Ísland mætir Grikklandi og von er á þúsundum Íslendinga ytra til að styðja við bakið á liðinu. Hér að neðan má sjá þegar karfan.is ræddi við Elvar og Hauk í morgun.
Ljósmynd/ Víkurfréttir – vf.is / Páll Ketilsson- Landsliðið kveður Ísland í bili