spot_img
HomeFréttirFer í viðskipti eftir 10 ár eða svo

Fer í viðskipti eftir 10 ár eða svo

16:00

{mosimage}

Hér kemur að lokum viðtal Sigurðar Elvars við Jón Arnór sem var birt í 24 stundum miðvikudaginn 11. júní. Nú er lokið birtingu okkar á skrifum Sigurðar Elvars og Óskars Ófeigs og þökkum við þeim skemmtilegan fréttaflutning frá Ítalíu.

„Þetta er hálfgert flökkulíf í atvinnumennskunni í körfubolta. Ég veit ekki af hverju þetta er svona. Það er meira um að leikmenn geri langtímasamninga í fótbolta og handbolta en í körfuboltanum er það frekar undantekning en regla,“ sagði Jón Arnór þegar rætt var við hann í Ólympíuhöllinni í Róm þar sem lið hans, Lottomatica Roma, var að undirbúa sig fyrir fjórða leikinn í úrslitum um ítalska meistaratitilinn gegn Siena.

Ekur um á jeppa í Róm
Það eru ekki margir jeppar á ferð í Róm að öllu jöfnu en fyrir utan höllina voru nokkrir glæsivagnar og þar á meðal Porsche Cheyennejeppi í eigu íslenska landsliðsmannsins. Jón hefur búið í tæp tvö ár í Róm og kann ákaflega vel við sig í borginni. „Þetta er einstök borg. Umferðin er gríðarlega mikil og mesti ókosturinn við borgina. Það er stundum erfitt að komast á milli staða en að öðru leyti er þetta frábær staður. Ég sé mig alveg búa hérna í nokkur ár til viðbótar ef allt gengur upp hvað varðar liðið mitt. Það er reyndar óljóst. Ég var að vonast til þess að geta fest mig í nokkur ár á þessum stað eftir talsvert rót undanfarin ár. En það eru blikur á lofti og allt eins líklegt að ég fari frá félaginu í sumar. Kannski er það kostur fyrir atvinnumann að fara á nýja staði sem oftast. Það heldur manni á tánum og það hefur virkað vel fyrir mig fram að þessu. Eftir árið sem ég tók í Rússlandi þá held ég að ég sé búinn að upplifa nánast allt. Það var lærdómsríkt ár.“

Bækur og tónlist framarlega í forgangsröðinni
Margir eiga þann draum að komast í atvinnumennsku í íþróttum en það er ekki alltaf dans á rósum. Jón segir að hann nýti frítímann í marga hluti og þá sérstaklega í lestur góðra bóka og tónlistin er einnig framarlega í forgangsröðinni. Þeir sem hafa fylgst náið með landsliðsmanninum undanfarin ár hafa tekið eftir því að vöðvar hans hafa „bólgnað“ út og er ástæðan  einföld. „Ég reyni alltaf að lyfta lóðum þegar tími gefst til. Það er nauðsynlegt að æfa aðeins meira en hinir. Ég hef  reyndar verið rólegur í lyftingunum í úrslitakeppninni og sleikt frekar sólina við sundlaugina heima í staðinn. Þetta er erfiður tími og það fer mikil orka í þessa leiki. Stundum fer allur dagurinn í það að undirbúa sig fyrir næstu æfingu eða leik. Við þurfum að huga vel að matarræðinu, það þarf að teygja á vöðvunum og ná líkamanum í lag eftir átökin. Þetta er allt hluti af vinnunni.“

Skoppari á unglingsárunum
Áhugamál Jóns eru mörg og þar stendur bóklestur og tónlistin upp úr. Hann var „skoppari“ á unglingsárunum  sem leikmaður KR. Rapptónlistin átti hug hans á þeim  tíma en eftir því sem árin hafa liðið hefur smekkur hans breyst. Bóklestur er það sem allt snýst um í dag  hjá Jóni. „Við ferðumst gríðarlega mikið og þar gefst tími til þess að lesa og hlusta á tónlist. Ég geri mikið af því. Bækurnar sem ég les eru fjölbreyttar. Skáldsögur, spennusögur og nú upp á síðkastið hef ég lesið margar bækur um sálfræði, heimspeki og íþróttasálfræði. Ég verð 26 ára gamall í september og mér finnst ég eiga mikið inni. Hugarþjálfun er eitthvað sem ég hef lítið spáð í fram að þessu en ég hef lagt mikla vinnu í að afla mér  upplýsinga um slíka hluti. Ég trúi því að slík þjálfun geti bætt mig sem leikmann um allt að 50%. Þetta snýst allt um rétt hugarfar og að geta tekið réttar ákvarðanir undir miklu álagi. Ég hef því verið að „hella“ mér út í slíka hluti í vetur og ég er rétt að komast í gegnum grunnatriðin í þeim efnum.“ Gefst mikill tími til þess að gera eitthvað annað en að æfa og keppa?  „Ég er ekkert öðrvísi en aðrir 25 ára gamlir „strákar“. Við förum saman í bíó félagarnir úr liðinu, út að borða og það kemur fyrir að við getum farið út á næturlífið. Ég geri því ósköp svipaða hluti og aðrir. Það eru margir sem þekkja okkur úti á götu en sem betur fer er ástandið ekki það slæmt að fólk sé að elta okkur í búðir eða á kaffihús.“

Reyni að afla mér menntunar
Hvað fer Jón Arnór Stefánsson að gera þegar ferlinum lýkur eftir um 10 ár? „Já, þetta er góð spurning. Ég hef velt þessu fyrir mér og ég held að viðskipti séu það sem ég hef mestan áhuga á. Ég held að ég sé ekki þessi týpa sem fer í þjálfun. Það er samt aldrei að vita. Ég er að reyna að afla mér menntunar meðfram atvinnumennskunni. Það gengur hægt. Hef ekki hellt mér almennilega út í námið en það kemur að því. Ég hef áhuga á ýmsum hlutum en líklega verða viðskipti fyrir valinu.“ Þarftu eitthvað að vinna eftir að ferlinum lýkur? Ertu ekki moldríkur? „Ja, ég gæti svo sem haft það ágætt þegar ferlinum lýkur. Ég ætla ekki að sitja á rassinum og gera ekki neitt. Það kemur ekki til greina. Ég fer örugglega í golfið. Það er eitt af því sem ég mun stunda í ellinni.“

24 stundir

Mynd: La Gazzetta

Fréttir
- Auglýsing -