Fréttastofan AP segist hafa heimildir fyrir því að gamli risinn Shaquille O’Neal sé kominn langleiðina með að semja við Austurdeildarmeistarana og stórveldið Boston Celtics um að leika með þeim á næsta ári.
Shaq hefur verið á faraldsfæti síðustu árin þar sem hann fór frá Miami til Phoenix og þaðan til Cleveland eftir tíma sinn sem aðalstjarna stórveldis LA Lakers á árunum í kringum aldamótin.
Kall er nú orðinn 38 ára gamall og hefur fátt að bjóða utan gríðaraflsmuna sem hræða andstæðinga bæði í vörn og sókn. hann tleur sig þó enn eiga erindi, þó það væri ekki nema til að jafna vin sinn Kobe Bryant með því að bæta fimmta titilinum í safnið.
Atlanta var talinn líklegur áfangastaður, en það var úti úr myndinni fyrir nokkru, en Shaq vill einungis fara til liðs þar sem hann fær há laun, spilatíma og möguleika á titli.
Allt ofantalið gæti verið í boði hjá Boston, nema laun, þar sem stjörnurnar þrjár, Allen, Garnett og Pierce eru allir á drjúgum launum enn um sinn. Mögulega gæti Shaq þó slegið eitthvað af kröfum sínum til að komast um borð í skútuna grænu.
Síðasti orðrómur sem heyrðist af Shaq var að hann væri að íhuga Denver Nuggets, sem gæti einnig verið gott val þar sem mikill efniviður býr í því liði.
ÞJ