Formenn aðildarfélaga KKÍ hafa samþykkt 25% launahækkun körfuknattleiksdómara til næstu tveggja ára. Um er að ræða launahækkun sem er strax 15%, önnur 5% á næsta ári og 5% til viðbótar eftir tvö ár.
Samningar höfðu verið lausir við dómara frá síðasta ári en árið 2009 gáfu dómarar eftir launahækkun sem þeir áttu inni í ljósi efnahagsástandsins í þjóðfélaginu.
Samkvæmt heimildum Karfan.is hafa samningaviðræður staðið í þónokkurn tíma en launahækkunin fékkst samþykkt nú fyrir skömmu.
Einnig stendur fyrir dyrum að taka upp þriggja dómara kerfi á næstu leiktíð, 2012-2013. Í ár eins og síðustu ár er tveggja dómara kerfi á Íslandi. Þetta atriði mun einnig hafa verið uppi á borðinu hjá samningsaðilum og væntanlega skýrast línur ennfrekar með kerfið á næstu formannafundum KKÍ því næsta körfuknattleiksþing er ekki fyrr en að lokinni leiktíðinni 2012-2013. Verði næsta leiktíð í tveggja dómara kerfi má búast við um 2000 kr. hækkun á hvern dómara við dómgæslustörf í úrvalsdeild karla.
Flest lönd Evrópu eru með þriggja dómara kerfi en í stöku viðburðum/keppnum hefur verið notast við þrjá dómara hérlendis en úrvalsdeild karla hefur ávallt verið í tveggja dómara kerfi.
Ný gjaldskrá hefur einnig litið dagsins ljós í kjölfar samningaviðræna dómara og aðildarfélaga KKÍ og má nálgast hana hér.