spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaFélag dregur lið úr keppni – hefur neikvæð áhrif á ímynd körfuboltans...

Félag dregur lið úr keppni – hefur neikvæð áhrif á ímynd körfuboltans í heild og hagsmuni allra félaganna 

Það er ávallt slæmt fyrir íslenskan körfubolta þegar félög taka þá ákvörðun að draga lið sín úr keppni. Stutt er síðan karlalið Þróttar í Vogum gerði það þegar ljóst var að liðið myndi keppa í úrslitakeppni 1.deildar við Sindra frá Hornafirði. Þá hefur meira verið um það á undanförnum árum í kvennakörfunni að lið sem á keppnisrétt í efstu deild velji að falla niður um deild, draga úr umsvifum og hefja nýja vegferð.

Allt þetta hefur margvíslegar afleiðingar. Forsvarsfólk er ítrekað sakað um ófagleg vinnubrögð þar sem ekki hafi verið leitað allra leiða til að leita lausna og í verstu tilfellum hefur það hreinlega verið sakað um kynjamisrétti þar sem því er haldið fram að sambærilegt hefði aldrei gerst karlamegin. Ég ætla ekki að dæma um það enda er um að ræða mjög erfiðar ákvarðanir teknar af bestu getu af stjórnarmönnum í sjálfboðastarfi. Hins vegar ætla ég að benda á aðra og áhugaverða hlið á þessu máli sem sjaldan er fjallað um, þ.e. ímyndarhliðina, þá fjárhagslegu hagsmuni sem eru að veði og þær afleiðingar sem geta fylgt í kjölfarið á því að lið eru dregin úr keppni.

Körfuknattleikur er ,,lang-næst-stærsta” íþróttagrein í heimi, og er spilaður út um allan heim. Það er ekki bara NBA þar sem miklir peningar eru í húfi heldur eru deildir í Evrópu, Ástralíu, Kína og Suður-Kóreu að velta gríðarlegum fjárhæðum þar sem laun leikmanna geta verið hundruðir milljóna króna á ári. Þar gæti það hreinlega ekki gerst að lið ákveði einhliða að draga lið í efstu deildum úr keppni, enda hefði slíkt ófyrirséð áhrif á samninga við styrktaraðila o.fl. Þó að íslenska deildin sé ekki á sama stigi er atvinnumennska hluti af rekstri félaga í efstu deildum hér heima, bæði karla- og kvenna megin. Tekjur og væntar tekjur félaganna af sjónvarps-, veðmála- og gagnarétti hafa farið vaxandi á síðustu árum. Þessar tekjur hanga saman við ímynd körfuboltans sem skaðast þegar félög draga lið úr keppnum. Nýjum tekjuleiðum fylgja nýjar skyldur og þegar lið hrökkva frá myndast vanefndir, jafnvel forsendubrestur, og slíkt hefur fjárhagsleg áhrif, ekki aðeins á þá sem draga sig í hlé, heldur einnig á þau lið sem eftir sitja.

Það er því gríðarlega mikilvægt að íslensk körfuboltahreyfing taki ábyrgð og reyni að vanda sig betur, Sjái vandamálin fyrir, grípi inní og aðstoði. Gera allt til að forðast að lið séu dregin úr keppni. Hér gildir það sama og í heimilisbókhaldinu að mikilvægt er að horfa fram í tímann og sníða sér stakk eftir vexti þegar kemur að fjárhagslegum skuldbindingum. Stefna að sjálfbærum körfubolta þar sem hægt er að mæta óvæntum atburðum án þess að draga þurfi lið úr keppni. Það er augljóslega auðveldara að tala um þetta en framkvæma. Það er m.a. þess vegna sem þýska körfuknattleikssambandið, með félögum sínum þar í landi, tók fyrir mörgum árum upp svokallað leyfiskerfi sem býr til ákveðinn regluramma sem félögin verða að fara eftir. Þessi rammi á einmitt m.a. að draga úr líkum á að einstök félög fari fram úr sér fjárhagslega. Þar eru t.d. reglur sem skuldbinda félög til ákveðinna hluta eins og að tryggja ákveðna veltu (fjármögnun) ef viðkomandi lið telja sig geta keppt í þremur efstu deildum.

Ímynd íslensks körfubolta er vissulega sterk og jákvæð, ekki síst eftir frábært Íslandsmót, sem fékk mikla athygli líkt og síðustu ár. Hegðun allra félaganna hefur áhrif á ímynd íþróttarinnar og þar með þá fjármuni sem koma inn í hana. Það er því ekki bara hagsmunir þeirra félaga sem ákveða að draga lið sín úr keppni sem eru undir heldur hagsmunir félaganna í heild sinni. Íslenskur körfubolti er vaxandi og til þess að hann geri það áfram þurfa öll félögin að leggja sín lóð á vogarskálarnar og vanda til verka. Þá verður vonandi fyrir bý að félög þurfi að draga lið sín úr keppnum.

– Kjartan Ásmundsson talsmaður ÍTK

Fréttir
- Auglýsing -