spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaFékk íslenskan ríkisborgararétt og samdi strax við Ármann

Fékk íslenskan ríkisborgararétt og samdi strax við Ármann

Eins og kom fram á Körfunni í gær fengu sjö körfuknattleiksmenn íslenskan ríkisborgararétt og geta því leikið sem íslenskir leikmenn á næstu leiktíð. Meðal leikmanna var Cedrick Bowen sem leikið hefur hér á landi í fjölmörg ár með liðum eins og Álftanes, KR og Haukum. Fyrir síðustu leiktíð gekk hann til liðs við Ármann.

Hann var lykilleikmaður í liði Ármanns sem tryggði sér sæti í Bónus deildinni með því að sigra úrslitakeppni 1. deildar á síðustu leiktíð. Í framhaldi af því að Cedrick fékk ríkisborgararétt var tilkynnt að hann hefði endursamið við Ármann og leiki með þeim í Bónus deildinni á komandi leiktíð.

Á dögunum samdi Ármann við þá Marek Dolezaj, Dibaji Walker og Braga Guðmundsson um að leika með liðinu. Auk þess endursamdi liðið við Arnald Grímsson, Kára Kaldal og Frosta Valgarðsson.

Tilkynningu Ármenninga má finna í heild sinni hér að neðan:

Cedrick Bowen íslenskur ríkisborgari og endursemur

Körfuknattleiksdeild Ármanns kynnir með stolti að Cedrick Bowen hefur skrifað undir nýjan samning við félagið og mun leika með meistaraflokki karla á komandi tímabili. Cedrick hefur verið mikilvægur leikmaður í liði Ármanns undanfarin ár og er áframhaldandi samstarf við hann mikilvægur liður í uppbyggingu félagsins.

Þau tíðindi bárust rétt í þessu að Cedrick Bowen hafi verið veittur íslenskur ríkisborgararéttur af Alþingi, sem markar tímamót í hans tengslum við Ísland og íslenskt samfélag. Þetta er mikil viðurkenning á framlagi hans bæði innan vallar og utan.

Ármann og Cedrick höfðu undirritað samning fyrir nokkru sem virkist hér með með nýjustu fregnum. Við óskum Cedrick innilega til hamingju með ríkisborgararéttinn.

Auk þess að vera lykilleikmaður í meistaraflokki gegnir Cedrick einnig mikilvægu hlutverki sem þjálfari hjá yngri flokkum félagsins. Hann hefur hlotið mikið lof fyrir störf sín þar og er vinsæll meðal iðkenda og foreldra fyrir fagmennsku, jákvæðni og hvetjandi nálgun.

Við hjá Ármann erum afar ánægð með að Cedrick haldi áfram með félaginu og hlökkum til að sjá hann blómstra enn frekar Bónus deildinni á komandi leiktíð.

Fréttir
- Auglýsing -