spot_img
HomeFréttirFeðgarnir Haukur og Páll á leið til Bologna á Ítalíu

Feðgarnir Haukur og Páll á leið til Bologna á Ítalíu

14:37
{mosimage}

(Haukur Helgi Pálsson)

Fjölnismaðurinn Haukur Helgi Pálsson er einn efnilegasti leikmaður þjóðarinnar um þessar mundir en kappinn hefur þegar vakið athygli ítalskra stórliða. Nú á sunnudag mun Haukur ásamt föður sínum Páli Briem Magnússyni halda til Ítalíu þar sem Haukur verður við æfingar með stórliði Virtus Bologna. Karfan.is ræddi við Pál Briem faðir Hauks sem sagði að ef hann mætti ráða myndi strákurinn reyna að koma sér fyrir við nám og körfuboltaiðkun í Bandaríkjunum.

,,Við förum á sunnudagsmorgunin og komum heim á fimmtudagskvöld í næstu viku,“ sagði Páll en Haukur er Ítalíu ekki ókunnur þar sem hann fór fyrir skemmstu á mót með Stella Azura á Ítalíu en liðið er unglingalið Lottomatica Roma þar sem Jón Arnór Stefánsson lék á síðustu leiktíð. ,,Okkur var ráðlagt að ég færi út með honum en þarna verður hann við æfingar með Bologna en það er ekki á hreinu hvort það verði eitthvað með aðalliði félagsins eða með unglingaliðinu,“ sagði Páll sem kvaðst hafa vitneskju um að unglingastarf Virtus Bologna væri mikið og sterkt.

,,Persónulega eru blendnar tilfinningar í þessu hjá mér,“ svaraði Páll aðspurður um hvernig honum litist á möguleika Hauks um að verða atvinnumaður í körfubolta. ,,Ég vil ekki taka tækifærið af honum en helst vildi ég að hann gæti leikið körfubolta með námi. Við höfum rætt þetta feðgarnir og hann veit alveg mína skoðun á þessu máli. Þetta er mikil viðurkenning fyrir Hauk og gaman fyrir hann að komast út og sjá hvar hann stendur en helst myndi ég vilja að hann nýtti sér þessa hæfileika til þess að ná sér í nám og auðveldasta leiðin til þess er Bandaríkin,“ sagði Páll sem var fljótur til svara þegar hann var spurður hvort hann hefði farið í fleiri keppnisferðir með strákunum sínum eða helgarferðir með frúnni.

,,Miklu fleiri ferðir með strákunum, því miður,“ sagði Páll í gamansömum tón en hann á þrjá syni sem allir hafa látið að sér kveða í boltanum. Haukur er þeirra yngstur en tveir eldri eru þeir Magnús og Tryggvi Pálssynir. ,,Við frúin förum saman í frí eða helgarferð erlendis þegar síðasti fuglinn flýgur úr hreiðrinu,“ sagði Páll kátur í bragði.

Af gamansömu nótunum innti Karfan.is Pál að því hversu mikil alvara væri hjá Virtus Bologna og Stella Azurra um að fá Hauk í sínar raðir. ,,Stella vill fá Hauk á mót með sér í Frakklandi um páskana og það er allt opið ennþá. Þeir hjá Stella-liðinu hafa ekki gefið neitt upp um hvað þeir séu að pæla varðandi Hauk en þeir voru ánægðir með hann þegar hann kom til þeirra um jólin,“ sagði Páll sem nú í samráði við Hauk undirbýr ferð til Ítalíu.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -