spot_img
HomeFréttirFebrúar fárið

Febrúar fárið

 Kristinn Óskarsson dómari skrfaði á heimasíðu Karfan.is pistil árið 2009 um febrúar fárið og þá taugaveiklun og spennu sem honum fylgir hjá leikmönnum og stuðningsmönnum liða sinna.  Látum hér pistilinn sem Kristinn skrifaði fylgja með. 
 
Hann er kominn! Mánuðurinn sem dómararnir tala um. Mánuðurinn þar sem leikmenn og þjálfarar verða sérlega taugaveiklaðir sem smitar bæði áhorfendur og stjórnarmenn körfuknattleiksdeildanna. Þetta er erfiður mánuður fyrir okkur dómarana. Hvers vegna er þetta svona og hvað er til ráða?
 
 
Dómararnir eru meðvitaðir um þetta ástand og tala um það allt árið. Það er ekki erfiðast að dæma í úrslitakeppninni þó það sé ef til vill mikilvægast. Núna er lokaspretturinn hafinn í deildunum og liðin reyna að olnboga sig í eitthvert það sæti sem þau stefna á. Sumir eru að reyna að verða deildarmeistarar, aðrir að komast í topp 4. Einhver lið eru að stefna á úrslitakeppnina og sum eru að reyna að forðast fall. Eitt eiga liðin þó sameiginlegt, þau vilja gera aðeins betur. Á þessum árstíma er mikið um „fjögurra stiga leiki“ og væntingar liðanna eru að vinna. Það er alþekkt að þegar væntingar og raunveruleiki fara ekki saman myndast einhver togstreita sem fólk mætir á mismunandi hátt. Sumir með uppgjöf og vonleysi, aðrir með baráttu og krafti. Algengustu viðbrögðin eru þó tvímælalaust pirringur. Hvað er þá betra en taka vonbrigðin út á dómurunum.
 
 
Við dómarar tölum um „february mania“ eða febrúar fár! Hvernig dómararnir bregðast við þessum aðstæðum er afar mismunandi, bæði þar sem dómarar eru ólíkir og eins hvernig dómarar eru stemmdir og spennustigið hittir þá. Vissulega eiga dómararnir að halda kúlinu í öllum aðstæðum, en það er bara ekki alltaf svo. Reyndar hafa kappsfullir leikmenn sagt mér að stundum kjósi þeir frekar að dómarinn „hvæsi“ á þá til baka fremur en að dæma á þá tæknivillu sem e.t.v. er möguleiki í stöðunni. Mikilvægt er fyrir dómara að ræða þá á fundum sínum fyrir leiki, hvað er í húfi fyrir liðin og hvernig spennustigið kunni að hafa áhrif á framkomu og frammistöðu þátttakenda leiksins. Það er góður eiginleiki að vera læs á aðstæður, en það er betra að vera undirbúinn fyrir erfiðleika. Við skulum vona að flugmenn æfi sig að fljúga líka í vondum veðrum!
 
 
Rétt eins og margir bestu leikmennirnir eru margir bestu dómararnir kappsfullir. Mikilvægar stundir eru drifkrafturinn til að leggja mikið á sig og það eru mikilvægar stundir framundan. Dómarar eru körfuknattleiksunnendur og hafa unun af kappsfullu fólki og krefjandi aðstæðum. Þess vegna hlakka flesta dómara á að dæma í febrúar, mars og apríl.
 
Ég vil hvetja fólk að setja sig í spor annarra þátttakenda og skilja hvað það er sem knýr þá áfram. Þannig ætti að skapast samhljómur til þess að lokaspretturinn verði frábær á tímabilinu, íþrótt okkar til heilla.
 
 
Samantekt:
Febrúar er einn erfiðasti tíminn fyrir dómara til að dæma
Liðin reyna að komast aðeins hærra í töflunni.
Mismunur á væntingum og raunveruleika skapar tómarúm sem gjarnan er mætt með pirringi.
 
 
 
Með bestu kveðjum,
Kristinn Óskarsson, alþjóðlegur körfuknattleiksdómari
Fréttir
- Auglýsing -