spot_img
HomeFréttirFannar verður með KR í kvöld

Fannar verður með KR í kvöld

16:55

{mosimage}

Fyrirliðinn Fannar Ólafsson verður í leikmannahópi KR í fyrsta skipti á árinu í kvöld þegar Íslandsmeistararnir taka á móti fyrrum félögum hans í Keflavík í Iceland Express deildinni. Hér er um sannkallaðan toppslag að ræða.

"Já, ég ætla að reyna að spila í kvöld," sagði Fannar í samtali við Vísi í dag. "Ég er búinn að vera að æfa núna í viku og okkur sýnist að þetta muni ganga upp. Ég er að vísu að þessu í hálfgerðri óþökk við sjúkraþjálfarann því ég er næstum tveimur vikum á undan áætlun. Það er eiginlega of gott til að vera satt að maður skuli koma aftur fyrir leikinn gegn Keflavík," sagði Fannar léttur í bragði.

Hann hefur ekki komið við sögu hjá KR á þessu ári vegna hnémeiðsla, sem síðar leiddu til þess að hann meiddist lítillega á hásin. Hann hefur verið í strangri meðferð hjá sérfræðingi undanfarnar fjórar til fimm vikur og segist nú finna sig mun betur.

"Ég vonast til að geta spilað kannski 15-20 mínútur ef skrokkurinn leyfir í kvöld, en maður finnur það þegar maður byrjar að spila. Það er allt annað að spila á æfingum eða í leikjum," sagði Fannar.

Hann reiknar með hörkuleik og góðri mætingu á leikinn í DHL höllinni í kvöld. "Þetta er auðvitað slagur um efsta sætið og við þurfum reyndar að vinna þá ansi stórt ef við ætlum okkur það," sagði Fannar, en hann er ekki búinn að gleyma skotum fyrrum félaga sinna eftir 22 stiga sigur Keflvíkinga í fyrri viðureign liðanna í deildinni.

"Ég hlakka til að spila á móti gömlu félögunum og það var heilmikill "rusltal" sem flaug hjá þeim í fyrri leiknum og eðlilega. Við vorum að spila illa og það verður gaman að svara fyrir það í kvöld – þeir voru orðnir aðeins of góðir með sig í fyrri leiknum," sagði Fannar í léttum dúr, greinilega feginn að vera kominn aftur í slaginn.

Stórleikur KR og Keflavíkur hefst klukkan 19:15 í kvöld. 

www.visir.is

Mynd: [email protected]

 

Fréttir
- Auglýsing -