spot_img
HomeFréttirFannar: Tímabilið loksins byrjað!

Fannar: Tímabilið loksins byrjað!

08:00
{mosimage} 

 

(Fannar Ólafsson leikmaður KR)

 

Fannar Ólafsson býst við skemmtilegu einvígi hjá KR og ÍR í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en liðin mætast í sínum fyrsta leik kl. 16:00 í DHL-Höllinni í Vesturbænum í dag. Fannar sagði í samtali við Karfan.is að mikilvægt væri að stöðva skyttur ÍR-inga.

 

,,Ég held að þessir leikir verði mjög skemmtilegir og ég get ekki beðið eftir að spila þá. Ég hlakka líka til að koma hlutunum á hreint gagnvart ÍR því við spiluðum illa gegn þeim í Seljaskóla en áttum að vinna þá. ÍR er með hörkulið en ef okkur tekst að stöðva skytturnar þeirra verður þetta í lagi. Ef það tekst ekki verðum við í tómu basli með þetta einvígi,” sagði Fannar sem leikið hefur 15 deildarleiki með KR í vetur og gert í þeim að jafnaði 6,5 stig.

 

,,ÍR er með lið til að vinna hvaða andstæðing sem er en þeir geta líka tapað fyrir öllum svo það er hreinlega spurning um hvort ÍR liðið mæti til leiks. Við vitum að þeir vilja hlaupa og skjóta og fá okkur í hraða leikinn. Við viljum líka spila hratt en með tilkomu Sola viljum við líka koma boltanum aðeins inn í teig,” sagði Fannar sem kvaðst ekki nægilega sáttur við KR vörnina í vetur.

 

,,Við höfum ekki verið að leika sérstaka vörn undanfarið en í síðasta leiknum gegn Skallagrím smullu flestir okkar hlutir saman,” sagði Fannar og kvað það gefa góða raun að hafa Helm á bekknum í byrjun leiks og láta hann koma ferskan inn af tréverkinu. ,,Hann hefur komið mjög sterkur inn í leikina og það hefur gefið mikið. Það sem meiru máli skiptir er samt vörnin. Hún small saman í fyrra og ef það gerist aftur þá erum við til alls líklegir,” sagði Fannar og sagði úrslitakeppnina ráðast mikið af varnarleik liðanna.

 

,,Það er mikið af sterkum liðum núna í deildinni og margir góðir spilarar á öllum stöðum. Nú er þetta spurning um hvaða lið ætli að leika bestu vörnina. Ný keppni er hafin og vonandi verða öll hús full. Nú er tímabilið loksins byrjað,” sagði Fannar og átti bágt með að leyna tilhlökkuninni.

 

Laugardagur 29. mars

KR-ÍR kl. 16:00

DHL-Höllin í Vesturbænum

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -