spot_img
HomeFréttirFannar: Spilum úrslitaleik í hverjum leik

Fannar: Spilum úrslitaleik í hverjum leik

21:47
{mosimage}

(Fannar Ólafsson)

Landsliðsmiðherjinn Fannar Ólafsson var í góðum gír með KR í kvöld gegn sínum gömlu félögum í Keflavík þegar KR-ingar völtuðu yfir gesti sína 95-64 í 8-liða úrslitum Subwaybikarsins. Fannar gerði 16 stig í leiknum, tók 9 fráköst og varði 3 skot og hafði skýringu á reiðum höndum þegar Karfan.is innti hann eftir því afhverju Vesturbæingar væru svona seinir í gang í síðustu leikjum.

,,Það eru öll lið að mæta okkur af svo miklum krafti að við höfum eiginlega þurft smá tíma til að koma okkar leik í gang en við erum samt einbeittir og yfirvegaðir þó þetta sé ekki að detta hjá okkur í upphafi leikja,“ sagði Fannar og bætti við að núna á seinni hluta síðasta hausts hafi liðið lagt gríðarmikla vinnu í varnarleikinn.

,,Við erum farnir að loka svæðum betur og erum ekki að fá jafn margar körfur á okkur í teignum og þá leita liðin t.d. að þriggja stiga skotum með Jón Arnór og Jakob Örn í andlitinu og það er frekar erfitt,“ sagði Fannar sem kvaðst lítið gæla við þá hugmynd að KR myndi ekki tapa leik á þessari leiktíð.

,,Við hugsum ekki þannig heldur tökum klisjuna á þetta og hugsum um hvern leik fyrir sig en við erum með gríðarlega reynslumikið lið og það er að það sem er að skila sér núna. Sama hverjum við mætum þá mætum við af fullum krafti því um leið og við förum að slaka á þá vitum við að lið bíða eftir því að vinna okkur,“ sagði Fannar sem gerir sér fulla grein fyrir því að allir vilja vinna KR og vera fyrstir til þess!

,,Við vitum að við förum núna í úrslitaleik í hverjum leik og menn vilja vera fyrstir til að vinna liðið sem hefur ekki tapað leik og það er mikil áskorun fyrir okkur að halda því þannig en það er ekki yfirlíst markmið hjá okkur að tapa ekki leik í vetur en á móti kemur að við förum ekki neinn leik til að tapa,“ sagði Fannar sposkur.

Um 900 manns mættu á leikinn og var stemmningin góð í DHL-Höllinni og spurðum við Fannar út í hvernig þetta yrði þegar kæmi í úrslitakeppnina. ,,Þú getur rétt ímyndað þér það! Það verða brjáluð læti og örugglega um 2000 manns í húsinu og þetta er það sem stjórnin okkar hefur búið til. Það er passað upp á það að fólk mæti í stóru leikina og margir hafa lagt á sig mikla vinnu síðust sex ár og það er núna að skila sér sérstaklega vel,“ sagði Fannar sáttur með lífið og tilveruna enda hefur KR ekki tapað leik síðan í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð!

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -