,,Mér fannst þetta æðislegt og segir manni að maður sé að gera eitthvað rétt víst stúkan hjá Snæfell er að syngja um mann. Þetta kveikti verulega í mér, ég var eitthvað að væla yfir aumum ökkla en það hvarf um leið og ég fór að heyra þessa söngva og þakka stuðningsmönnum Snæfells bara kærlega fyrir þetta,“ sagði miðherjinn Fannar Ólafsson í samtali við Karfan.is eftir leik í Hólminum. Fannar meiddist á ökkla í þriðja leik KR og Snæfells og var tæpur fyrir kvöldið en rauð stúka heimamanna kom honum á bragðið.
Stór karfa sem þú settir undir lokin, aldrei hætta eða hvað?
,,Við vissum að Snæfellingar ætluðu að dobbla út þarna undir lokin og ef ég hefði ekki verið búinn að snúa mig á ökklanum þá hefði ég troðið þessu,“ sagði Fannar kátur en þegar mest á reyndi á lokasekúndunum tókst KR að sprengja upp Snæfellsvörnina sem endaði með sniðskoti hjá Fannari.
,,Varnarleikurinn hjá okkur var svakalegur í fjórða leikhluta og loksins fórum við að vinna aðeins í þeirra taktík, ýta þeim aðeins út úr skrínum, hleypa þeim ekki í að setja á okkur föst skrín og loka miðjunni. Við pössuðum að Berkis væri ekki að fá þriggja stiga skotin því hann hefur verið baneitraður undanfarið. Sem betur fer gekk þetta upp í kvöld og loksins hittum við úr nokkrum skotum í leiknum og Pavel tók leikinn í sínar hendur, það er það sem gerist í fjórða leikhluta og vel gert hjá Pavel sem er búinn að vera veikur karlgreyið. Hann var lengi í gang en þegar Pavel kemst í gang er ekkert hægt að stoppa hann,“ sagði Fannar en við slepptum honum ekki án þess að fyrirliðinn myndi tjá sig aðeins um oddaleikinn á fimmtudag.
,,Þetta eru skemmtilegustu rimmurnar og ég held að þessi lið hafi gert þetta þrisvar sinnum núna og það hefur alltaf verið þannig að KR vinnur oddaleikinn og við erum ekki að fara að tapa þriðja heimaleiknum í röð.“



