spot_img
HomeFréttirFannar: Skiptir öllu máli að hafa heimavallarréttinn

Fannar: Skiptir öllu máli að hafa heimavallarréttinn

 
,,Þetta er kannski ágætis áminning um að leikirnir séu ekki búnir þó menn séu 20 stigum yfir í hálfleik. Þá má maður heldur ekki hleypa liði eins og Keflavík í einhverja skotsýningu því þá ertu bara búinn að missa af þeim,“ sagði Fannar Ólafsson fyrirliði KR í samtali við Karfan.is eftir tapleik þeirra röndóttu gegn Keflavík í Iceland Express deild karla í kvöld.
,,Keflvíkingar hittu eins og ég veit ekki hvað og Morgan Lewis sagði við mig eftir leik að hann hefði þrisvar sinnum slegið í hendina á Burns í skoti og í öll skiptin fóru skotin hjá honum niður. Þannig að þetta er kannski eitt af þessum kvöldum þar sem allt dettur og í þessu tilfelli var það hjá Keflavík,“ sagði Fannar en það var ekki stærsta svekkelsi hans í leiknum.
 
,,Það sem ég er kannski aðallega svekktur með er Urule var að skora allt of mikið og það er leikurinn finnst mér. Allt í einu var hann farinn að valsa um og gera hluti sem við ætluðum ekki að láta hann gera,“ sagði Fannar en var það eitthvað að trufla KR í kvöld að deildarmeistaratitillinn skyldi vera mættur og reiðubúinn til afhendingar ef KR myndi vinna leikinn?
 
,,Nei ég held ekki að það hafi verið að trufla, ég tel að við hefðum bara þurft að slaka aðeins á, við héldu að þetta væri bara komið og þyrftum ekki annað en að mæta bara í seinni hálfleik. Enn og aftur þá gerist þetta, fyrst kenndum við Hamri og Stjörnunni lexíu en nú var komið að okkur og þetta ætti bara að vera hjálplegt í undirbúningi fyrir fimmtudaginn. Við ætlum okkur að lyfta bikar þar,“ sagði Fannar en KR mætir Snæfell í Stykkishólmi í síðustu umferðinni.
 
,,Þetta verður svakaleikur, þeir eru með eitt sterkasta lið landsins og eitt besta varnarlið landsins svo það er eins gott að við mætum tilbúnir til leiks og við gerum það, alveg klárt. Við höfum ekki tapað tveimur leikjum í röð í allan vetur og ætlum okkur ekki að byrja á því núna,“ sagði Fannar en það var ekki að ástæðulausu að við skyldum ræða við miðherjann enda er hann enginn kálfur í deildinni. Af því gefnu inntum við hann eftir því hvort hann ræki minni til þess að hafa spilað í eins jafnri deild og nú?
 
,,Nei ég man það ekki, ekki svona. Um daginn var ég beðinn um að spá fyrir hvernig lokastaðan yrði og það er náttúrulega bara ekki hægt. Þetta var þegar það voru þrír leikir eftir og það er skondið að þá var hægt að hafna í 1.-6. sæti. En við ætlum okkur deildarmeistaratitilinn og toppsætið er gríðarlega mikilvægt því deildin er svo jöfn, ef þú hefur heimavallarréttinn þá skiptir það öllu máli,“ sagði Fannar sem gerði 11 stig og tók 9 fráköst fyrir KR í kvöld.
Fréttir
- Auglýsing -