11:30
{mosimage}
(Fannar Ólafsson)
Landsliðsmiðherjinn Fannar Ólafsson segir sína menn í KR vera klára í slaginn gegn Stjörnunni í Subwaybikarúrslitum í dag. KR hefur oftast allra liða unnið bikarmeistaratitilinn en Stjarnan berst um hann í fyrsta sinn. Fannar er nú í þriðja sinn að fara í Laugardalshöll en þegar hann komst þangað síðasta lék hann með Keflavík en var meiddur þegar félagar hans lyftu bikarnum á loft.
Er þetta leikur sem KR verður að vara sig á, passa sig á að vanmeta ekki Stjörnuna?
Ég held að við höfum kannski fengið rassskellinguna á undan þegar við mættum hálf værukærir í leikinn gegn Grindavík og við erum alveg 100% á því að það sé ekki neitt vanmat í gangi því Stjarnan er með hörkulið og við ætlum okkur ekki út í neitt bull í þessum leik. Við lentum í veseni á móti Grindavík og ég er eiginlega feginn að hafa fengið svona útreið fyrir bikarúrslitaleik því æfingarnar undanfarið hafa verið hálfgerð slagsmál. Þau slagsmál og ákefð flytjast vonandi vel af æfingum yfir í bikarúrslitaleikinn í dag.
Í hvaða skipti ert þú að leika til bikarúrslita?
Þetta er í þriðja skiptið sem ég fer í Höllina en árið 1999 töpuðum við í Keflavík eftirminnilega þegar við vorum 8 stigum yfir og 30 sekúndur til leiksloka. Hemmi Hauks jafnaði fyrir Njarðvík þegar hálf sekúnda var eftir og Njarðvík vann framlenginguna sem var hrikalega sárt því við vorum komnir með aðra hönd á bikarinna. 2004 er ég bara ekki þátttakandi, ég var meiddur í þeim leik en Keflavík vann en ég á samt eftir að spila almennilegan leik í Laugardalshöll svo mín nálgun er kannski sú að koma mjög einbeittur til leiks. Ég finn það persónulega að ef ég næ ekki að einbeita mér vel deginum áður og á leikdegi þá er ég ekki að spila vel og ég held að það eigi við um allt liðið. KR hefur spilað svona leiki áður og reynsla er ekki vandamál heldur þarf hausinn að vera rétt skrúfaður á og þannig hefur það verið í allan vetur hjá okkur nema gegn Grindavík í Röstinni en við erum snarlega búnir að laga það.
Það er von á spennandi einstaklingsviðureignum í leiknum í dag t.d. munið þið Fannar Helgason há myndarlegt einvígi, er nafni þinn að ryðja sér til rúms í miðherjaumræðunni?
Já, hann er búinn að spila mjög vel í vetur og það er alltaf gaman að fá að taka vel á því og ég veit að það verður mikið leyft í úrslitaleiknum eins og náttúrulega á að vera í hörkuleikjum. Fannar hefur átt flottan vetur með Stjörnunni í vetur en okkar helsti fókus í leiknum eru frekar Justin Shouse og Jovan Zdravevski, þeir eru svona hættulegustu sóknarmenn Stjörnunnar. Shouse getur borið hvaða lið sem er á herðum sér og þá getur verið erfitt að eiga við Jovan. Við ætlum að stoppa skytturnar og það er kannski svona grunnatriði sem snúa að mér, að stíga upp og loka á skytturnar.
KR-Stjarnan
Kl. 16:00 í Laugardalshöll



