spot_img
HomeFréttirFannar og KR b lágu við „Vatnið“

Fannar og KR b lágu við „Vatnið“

Nýtt og sameinað lið Laugdæla og Hrunamann buðu KR b velkomna í sveitina í fyrsta leik liðsins í 2. deild karla. Lið heimamanna er skipað strákum sem koma úr uppsveitunum eða eiga í það minnsta ættir sínar að rekja þangað. Það var enginn annar en landsliðsfyriliðinn fyrverandi Fannar Ólafsson sem mætti með Vesturbæingana á sinn gamla heimavöll á Laugarvatni, hvar hann steig sín fyrstu skref á menntaskólaárunum. Fannar og félagar voru eftir jafnan og spennandi leik lagðir í „vatnið“ af fyrrum sveitungum Fannars.

Það er ekki hægt að segja annað en þetta hafi verð leikur varnarinnar þar sem staðan eftir 1.leikhluta var 16 – 9 heimamönnum í vil. Í 2. leikhluta mætti Herbalife kóngurinn Skarphéðinn Ingason og niður skot í öllum regnbogans litum. Staðan í háfleik 21-21. KR-ingar leiddu framan af síðari hálfleik en í 4.leikhluta náðu heimamenn að keyra ögn upp hraðann og ná frumkvæðinu.

Laugvetningurinn Ragnar Gylfason hrökk í gang undir lokin og náði að draga frændur sína inní leikinn með stórum körfum auk þess sem hann var öryggið uppmálað á vítalínunni. Heimamenn náðu forskoti með því að setja niður vítin sín og héldu þeir forystunni til loka þrátt fyrir stór áhlaup KR-inga á lokamínutum. Leiknum lauk 54-49.

Stigaskor Hrunamenn/Laugdælir: Ragnar Gylfason 16, Florijan Jovanov 16, Arnþór Tryggvason 8, Bjarni Bjarnason 5, Pálmi Snær Hlynsson 5, Þorkell Bjarnason 2, Sigurður Sigurjónsson og Hjalti Magnússon 1 stig hvor. Hjá KR-b var Skarphéðinn Ingason með 39 stig, Guðmundur Magnússon 4, Fannar Ólafsson 3 og Jóhannes Árnason 3.

Frétt og mynd/ Sölvi – Fannar Ólafsson til varnar á sínum gamla heimavelli á Laugarvatni.

Fréttir
- Auglýsing -