Eins og hver heilvita maður veit er körfubolti móðir allra íþrótta. Ótal ólík atvik gleðja augað í hverjum leik. Jafnvel í ójöfnum leikjum, þar sem spennan er ekki beint að ógna lífi hjartveikra, má oft skemmta sér vel yfir glæsilegum tilþrifum, fallegu samspili, skotum, troðslum, vörðum skotum og svo framvegis.
Körfuboltinn er líka leikur tölfræðinnar. Allir körfuboltaáhugamenn rýna í ,,stattið“ eftir leiki og velta ýmsu fyrir sér. Hvernig fór frákastabaráttan? Hver var skotnýting liðsins? Hvað töpuðum VIÐ eiginlega mörgum boltum í þessum leik?!
En að efni greinarinnar – ef skoðuð er tölfræðileg staða úrvalsdeildar karla þessa stundina gleður hún svo sannarlega augu þeirra sem gefnir eru fyrir gott skipulag og formfestu! Auðvitað gleður staðan einna helst KR-inga, en fagurfræðilega séð er hún samt sem áður fullkomin útaf fyrir sig. Eins og sjá má hefur efsta liðið, KR, aðeins tapað einum leik á meðan botnlið Valsmanna hefur þurft að sætta sig við einn sigurleik til þessa. Eðli málsins samkvæmt hafa KR-ingar því fagnað sigri jafn oft og Valsmenn hafa þurft að sætta sig við tap. Keflvíkingar sitja í öðru sæti og samanborið við liðið í næstneðsta sæti, KFÍ, sjáum við að nákvæmlega sama er upp á teningnum! Keflavík hefur tapað 4 leikjum og unnið 16, KFÍ hinsvegar unnið fjóra og tapað 16. Svona speglast staða deildarinnar 100% alla leið eins og glöggir lesendur ættu að geta séð!

Já – jafnvel staðan í deildinni þessa stundina er jafn fagurfræðilega stórkostleg og leikurinn sjálfur!
Kári Viðarsson



