spot_img

Fagmenn

Ólafur Ólafsson varð í gærkvöld fyrir því óláni að meiðast illa snemma í fjórða leik Stjörnunnar og Grindavíkur í undanúslitum Iceland Express deildarinnar. Flytja þurfti Ólaf á brott með sjúkrabifreið en Helgi Jónas Guðfinnsson þjálfari Grindavíkur tjáði Karfan.is það eftir leik að Ólafur hafi farið úr lið á ökkla en þetta leit afar illa út séð frá áhorfendapöllunum og grunaði flesta að um brot væri að ræða.
Hvert sem litið er og ef litið er nógu vel má finna fagmenn í hverju horni. Einn fagmaðurinn, Teitur Örlygsson, var fyrstur á vettvang og fyrstur til að kveikja að um mjög alvarlegt atvik væri að ræða og rauk hann Ólafi til aðstoðar og var í töluverðan tíma við hans hlið á meðan frekari hjálp barst. Þjálfari að hlúa að leikmanni í liði andstæðinganna. Fagmaður.
 
Ólafur sjálfur lá þjáður í parketinu en sjúkraflutningamenn voru einkar fljótir á staðinn og þegar kom að því að flytja Ólaf á brott sendi hann sínum mönnum í Grindavík tóninn af sjúkrabörunum. Hnefinn á loft á leið sinni á spítalann. Fagmaður.
 
Hversu fljótt sjúkraflutningamenn voru mættir á staðinn. Fagmennska.
 
Þetta er allt um kring þegar nánar er að gáð. Það er einmitt svona fagfólk sem er á fullu á bak við tjöldin og inni á vellinum á meðan við t.d. skemmtum okkur konunglega á körfuboltaleikjum.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -