Eins og fram hefur komið hefur Guðmundur Bragason aðstoðarþjálfari neyðst til að stíga til hliðar úr starfi sínu vegna anna hjá fyrirtæki sínu Sónar. Guðmund þekkja flestir í bransanum og eftir að hafa sett risastórt spor sitt á sögu körfuknattleiksdeildar UMFG heldur hann áfram að vissu leyti í gegnum syni sína tvo sem báðir eru í liðinu. "Auðvitað á ég eftir að sakna þess að vera á hliðarlínunni en ég fer reyndar ekki langt. Ég fer yfir í stúkuna og öskra á piltana þaðan. Maður fær allavega ekki tæknivillu í stúkunni." sagði Guðmundur í samtali við Karfan.is
"Það er mikið að gera í vinnunni hjá mér og sú vinna þýðir töluverð ferðalög bæði innan sem og utan lands. Þetta gerir það að verkum að ég get ekki sinnt starfinu líkt og ég vil og því tel ég þetta best fyrir alla." sagði Guðmundur ennfremur.
Sem fyrr segir eru þeir Jón Axel og Ingvi synir hans báðir í liðinu og því varla hægt að sleppa því að spyrja örlítið út í fjölskyldulífið og hvernig sé að vera með syni sína á bekknum. "Ég hef þjálfað þá oft áður svo það á ekki að vera neitt nýtt fyrir þá. Það hefur ekkert skarast á hjá okkur feðgum og ég veit ekki annað en að þeim hafi liðið ágætlega að hafa kallinn á bekknum." sagði Guðmundur að lokum.