21:50
{mosimage}
(Eyjólfur fagnaði Stjörnusigrinum af mikilli innlifun. Í bakgrunni má sjá Jón Kr. Gíslason, hann hefur marga fjöruna sopið á parketinu)
Stjarnan sagði upp samningi sínum við þjálfarann Braga Magnússon á dögunum og við hans starfi tók Eyjólfur Örn Jónsson. Verkefnið var tímabundið og var hinn þaulreyndi Jón Kr. Gíslason fenginn Eyjólfi til aðstoðar. Þeir félagar lönduðu langþráðum sigri með Stjörnunni í kvöld og nýráðinn þjálfari Stjörnunnar, Teitur Örlygsson, lét sig ekki vanta á bekkinn. Karfan.is náði tali af Eyjólfi eftir sigurleikinn gegn FSu í kvöld og var hann hinn kátasti.
Þú stýrir þínum fyrsta leik í úrvalsdeild og vinnur sigur en þarft að segja strax af þér, er það ekki skrýtin staða? ,,Þetta er það sem ég vildi, við Jón Kr. tókum að okkur þetta 10 daga verkefni og þetta var sigurinn sem við ætluðum okkur. Nú erum við komnir með frábæran mann til að taka við af okkur þannig að þetta lítur vel út,“ sagði Eyjólfur í leikslok en eftir þennan leik í kvöld er Teitur Örlygsson orðinn aðalþjálfari Stjörnunnar.
Þetta var ekki amalegt teymi með þér á bekknum í kvöld! Teitur Örlygsson og Jón Kr. Gíslason! ,,Já, það er hægt að nota þessa gæja,“ sagði Eyjólfur kátur. ,,Þetta var sex stiga leikur og alveg meiriháttar að fara með þennan sigur inn í jólin,“ sagði Eyjólfur en þessir spennuleikir hafa ekki verið að falla Stjörnunni í skaut í vetur.
,,Við erum búnir að jarða spennuleikjagrýluna og mér líst rosalega vel á framhaldið, þetta er allt að fara að gerast hjá okkur,“ sagði Eyjólfur og hélt áfram að fagna í Ásgarði.



