Skallagrímsmenn mæta sterkir til leiks í 1. deild karla á komandi leiktíð en Eyjólfur Ásberg hefur ákveðið að leika með liðinu áfram. Þetta staðfesti hann við Karfan.is fyrr í kvöld.
Eyjólfur kom til liðs við Skallagrím frá ÍR fyrir ári síðan en hann er uppalin hjá KR. Hann var með 9,6 og 5,2 fráköst að meðaltali í leik með Skallagrím í Dominos deildinni á síðustu leiktíð. Hann átti nokkra frábæra leiki fyrir liðið og var meðal annars með 27 stig í sigri á Snæfell. Þá var Eyjólfur hluti af U20 landsliði karla sem náði mögnuðum árangri í A-deild evrópumótsins og endaði í áttunda sæti á mótinu fyrr í sumar.
Einhverjir höfðu gert ráð fyrir að Eyjólfur myndi færa sig til liðs í efstu deild á undirbúningstímabilinu. En hvers vegna ákvað Eyjólfur að leika áfram með Borgnesingum: „Aðallega vegna þess að Borgarnes er frábær bær, ég er buinn að mynda mörg sterk sambönd með fullt af fólki og langaði að koma Skallagrími í efstu deild þar sem það á að vera.“ sagði Eyjólfur í viðtali við Karfan.is í gær og bætti við:
„Ég var vissulega mjög efins í byrjun um að það væri rétta skrefið að fara í 1.deildina en eftir að hafa ráðfært mig við góða menn þá ákvað ég að slá til þó það sé auðvitað leiðinlegt að sjá eftir Dominos deildinni. Jú ég talaði við nokkur lið og var það spennandi líka en ekkert varð úr því.“
Skallagrímur féll úr Dominos deild karla á síðasta tímabili eftir að hafa endað með 14 stig í 11 sæti deildarinnar. Liðið hefur þegar misst Sigtrygg Arnar Björnsson til Tindastóls fyrir næsta tímabil í 1. deildinni og því ljóst að stórt skarð er ófyllt í liðinu. ?
Liðið hefur samið við kjarna af heimamönnum fyrir næsta tímabil og ber þar helst að nefna Bjarna Guðmann Jónsson sem lék lykilhlutverk með U18 landsliðinu á evrópumótinu á dögunum. Auk þess mun Darrell Flake leika áfram með liðinu en hann verður einnig aðstoðarþjálfari Finns Jónssonar með Skallagrím á komandi leiktíð.
Mynd / Gunnlaugur Auðunn Júlíusson