A-deild evrópumóts U20 landsliða hefst í dag í Grikklandi. Ísland er meðal þátttakanda eftir að hafa lent í öðru sæti í B-deild mótsins fyrir ári síðan. Ljóst er að mótið er gríðarlega sterkt og framundan er stórt verkefni fyrir Íslenska liðið.
Andstæðingar í fyrsta leik mótsins er Frakkland. Liðið endaði í 13 sæti fyrir ári síðan eftir að hafa unnið hreinan úrslitaleik um að halda sæti sínu í deildinni. Flestir leikmenn liðsins leika með liðum í frönsku A-deildinni þar sem Martin Hermannsson og Haukur Helgi Pálsson munu leika. Stærsta stjarna liðsins Frank Ntilikina leikmaður New York Knicks er eins og gefur að skilja ekki með á mótinu þar sem hann leikur í sumardeild NBA þessa dagana.
Ísland er einnig með Tyrklandi og Svartfjallalandi í riðli en Finnur Freyr Stefánsson þjálfari liðsins sagði það helsta markmiðið að halda liðinu í A-deild. Þrjú neðstu sætin á mótinu falla niður í B-deild en 16 lið taka þátt á þessu lokamóti U20 landsliða.
Leikurinn er í beinni útsendingu á Youtube rás FIBA og er lifandi tölfræði á Fiba.com. Karfan.is er búið að koma sér vel fyrir í Krít á Grikklandi og munu umfjallanir, viðtöl, myndir og annað efni af leikjum mótsins birtast beint á síðunni.
Leikur dagsins:
Ísland – Frakkland kl 13:00 – (íslenskur tími) í beinni á Youtube
Mynd / FIBA.com