spot_img
HomeFréttirEvrópa svo NBA, helvíti gott plan!

Evrópa svo NBA, helvíti gott plan!

 Eins og þegar hefur komið fram er karlaliði Grindavíkur spáð Íslandsmeistaratitlinum í ár en gulir hafa unnið titilinn einu sinni áður en það var leiktíðina 1995-1996 þegar Guðmundur Bragason hóf þann stóra á loft í Keflavík. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og á síðasta tímabili mættust Grindavík og KR í sögulegum oddaleik þar sem KR hreppti hnossið.
 Grindvíkingar líta vel út þetta árið og þar verður vert að gefa Ólafi Ólafssyni gaum en hann lék í Þýskalandi á síðustu leiktíð og fór fremstur í stuðningsmannahópi Grindavíkur í úrslitakeppninni. Nú er hann kominn úr stúkunni og út á gólf.
 
,,Staðan á mér er góð, ég er í toppformi miðað við það sem gerðist hjá mér í sumar því ég lenti í vinnuslysi þar sem ég féll niður eina 4-5 metra og lenti á steypugólfi með þeim afleiðingum að ég tognaði eitthvað í bakinu. Ég var reyndar bara frá í 2-3 vikur eftir slysið og svo var ég farinn að hreyfa mig. Ég byrjaði reyndar mjög rólega og nú er ég kominn í topp form þó ég finni lítið eitt fyrir bakinu ennþá,“ sagði Ólafur sem lék með unglingaliði Eisbaren Bremerhaven á síðustu leiktíð.
 
 
 
,,Við fjölskyldan bjuggum í Þýskalandi 2000-2001 í Bremerhaven og sumarið 2008 fórum við þangað í heimsókn. Vitaskuld tókum við rúnt framhjá gamla íþróttahúsinu í bænum og þar sáum við nokkra stáka vera að spila. Í þeim hópi leyndist reyndar þjálfarinn sem bauð mér að vera með í leiknum. Hann sagði mér að hita upp og ég gerði það og fór svo að spila með þeim. Það fór svo að ég fékk góða ,,alley up“ sendingu og tróð eiginlega yfir þjálfarann,“ sagði Ólafur sposkur sem vitaskuld var fenginn til liðsins eftir þessa tilburði.
 
 
Til að hressa upp á minnið hjá lesendum er Ólafur troðslukóngur Íslands og þá hefur hann unnið sér annað til frægðar en það er ljósmynd af kappanum þar sem hann reynir að trufla Fannar Ólafsson, leikmann KR, í vítaskoti í úrslitakeppninni á síðasta tímabili. Þá var Ólafur meðal áhorfenda.
 
 
,,Ég verð með Grindavík í vetur og stefnan þar er að vinna allt. Við erum hungraðir frá því í fyrra eftir sárt tap gegn KR. Þá var ég stuðningsmaður og var að styðja strákana og ég verð eins á vellinum og ég var í stúkunni, legg mig alltaf fram og reyni að gera mitt besta svo liðið mitt vinni,“ sagði Ólafur og sést það bersýnilega á meðfylgjandi mynd að þau eru ófá úrræðin hjá Ólafi.
 
 
,,Persónulega ætla ég mér að reyna að verða sjötti til sjöundi leikmaður hjá Grindavík í vetur og hjálpa liðinu að vinna allt. Ég hef bætt mig mikið sem leikmaður, skotið er betra hjá mér. Þá er ég farinn að halda mér á jörðinni þar sem körfuboltinn snýst ekki bara um að geta hoppað hátt og troðið. Maður þarf að spila vörn en ég viðurkenni að ég gleymi mér stundum í hitanum og þá fær maður að heyra það hjá Frikka þjálfara,“ sagði Ólafur sem hefur haft það orð á sér að vera villtur leikmaður.
 
 
Á tímabili var það inni í myndinni hjá Ólafi að reyna fyrir sér í Bandaríkjunum en það hefur eitthvað breyst núna. ,,Ég er kominn heim til að klára skólann og þessi þrjú ár sem ég skrifaði undir hjá Grindavík. Framtíðin er vonandi bara björt og ég væri alveg til í að spila í Þýskalandi í framtíðinni en svo langar öllum körfuboltamönnum að fara í NBA svo eigum við ekki að segja Evrópa í nokkur ár og svo bara NBA. Ég myndi segja að það væri helvíti gott plan,“ sagði Ólafur brattur en það er sjaldan langt í stuðið hjá stráknum.
 
 
Ólafur er yngri bróðir Þorleifs Ólafssonar, landsliðsmanns og leikmanns Grindavíkur, en Þorleifur hefur margsannað sig á meðal þeirra bestu í íslensku úrvalsdeildinni en nú er röðin komin að Ólafi og verður hann svona helsta framlag færibandsins í Grindavík úr yngriflokkunum þetta árið í meistaraflokksstarfinu. Þó Ólafur hafi boðað jarðbundnari leik hjá sjálfum sér að þessu sinni er það þungur kross að bera að vera troðslukóngur Íslands og eflaust margir sem krefjast þess að Ólafur ,,stuffi“ tuðrunni eftir gegnumbrot í stað þess að leggja hann í spjaldið og ofan í!
 
 
Fréttir
- Auglýsing -