spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2021Eva Margrét er nýliði í hóp landsliðsins "Mikill heiður að fá að...

Eva Margrét er nýliði í hóp landsliðsins “Mikill heiður að fá að spila fyrir hönd Íslands”

Íslenska landsliðið leikur tvo leiki í undankeppni EuroBasket 2021 í vikunni. Báðir fara leikirnir fram í búbblu í Grikklandi, þar sem að fyrri leikur þeirra fimmtudaginn 12. gegn sterku liði Slóveníu og laugardaginn 14. gegn Búlgaríu. Báðir verða leikirnir í beinni útsendingu á RÚV.

Karfan ræddi við nýliða í liðinu Evu Margréti Kristjánsdóttur og spurði hana út í aðstæður í Grikklandi og leikina tvo.

Hvernig er stemmingin í hópnum fyrir leikjunum tveimur?

“Stemningin hefur almennt verið mjög góð og allar mjög spenntar fyrir því að fá að spila loksins. Við höfum haft lítinn tíma saman en á þeim stutta tíma þá höfum við náð að samstilla okkur virkilega vel og erum spenntar fyrir komandi leikjum”

Hvernig er að koma inn í þetta lið sem nýliði?

“Það hefur bara verið mjög gaman að koma inn í liðið með þessum stelpum og þær hafa tekið mjög vel á móti mér. Það er mikill heiður að fá að spila fyrir hönd Íslands”

Hverjir eru helstu veikleikar og styrkleikar liðsins?

“Styrkleikar liðsins eru að við þekkjumst flest allar frekar vel og vitum hvað hver og ein getur einnig erum við marga góða skotmenn. Veikleikar liðsins eru að þetta er frekar nýtt lið og höfum lítið spilað saman fyrir þetta verkefni og einnig vantar okkur lykilleikmenn”

Hafa verið einhverjar áhyggjur varðandi Covid-19 í búbblunni?

“Við höfum ekki haft miklar áhyggjur seinustu daga og höfum við passað sóttvarnir vel. En eftir hádegi í dag kom í ljós að það hafa komið upp smit innan búbblunnar í öðrum liðum og þá að sjálfsögðu vöknuðu upp áhyggjur hjá okkur”

Hafið þið náð að æfa vel og skoða andstæðingana?

“Við hefðum viljað æfa meira þar sem við fengum engar liðsæfingar á Íslandi en æfingarnar hér úti hafa gengið vel. Við höfum farið á nokkra video fundi og náð að fara yfir andstæðingana og einnig æft það á æfingum síðustu daga”

Hvað þarf Ísland að gera til þess að ná góðum úrslitum?

“Við þurfum allar að mæta tilbúnar í leikina og gefa allt í þetta. Bæði Slóvenía og Búlgaría eru með margar mjög sterkar stelpur og öflugt lið en ef við mætum tilbúnar til leiks þá verða þetta skemmtilegir leikir”

Fréttir
- Auglýsing -