spot_img
HomeFréttirEuroBasket 2017: D-riðill

EuroBasket 2017: D-riðill

Nú styttist óðfluga í lokakeppni EuroBasket 2017 þar sem Ísland mun í annað sinn í röð taka þátt. Eins og flestum ætti að vera kunnugt leikur Ísland í A-riðli sem fram fer í Helsinki en hinir þrír riðlarnir fara fram í Ísrael, Rúmeníu og Tyrklandi.

Við fengum fyrrum Hauka-leikmanninn og þjálfarann Jón Arnar Ingvarsson til þess að rýna aðeins í D-riðil fyrir Karfan.is og á næstunni verða nýir rýnendur með C,B og loks A-riðil Íslands.

Jón Arnar Ingvarsson

D-riðill er einn af þeim áhugaverðari í þessari keppni. Með gestgjafa Tyrki, Rússa, Serba, Letta, Belga og Breta. Eins og við vitum þá eru liðin á loka metrum undirbúnings fyrir keppnina. Komnar eru lokamyndir á hópana og svona hvernig vélin er að vinna hjá hverju liði fyrir sig.
Það er auðvitað alltaf þannig í svona mótum að það eru einhver spútniklið og einhver stór vonbrigði. Ég væri ekki hissa þótt við hefðum eitt af hvoru úr þessum riðli. Fyrirkomulagið er með þeim hætti að 4 efstu liðin fara áfram en 2 neðstu fara heim.
Ég geri ráð fyrir að flestir sjái Belga og Breta verma 2 neðstu sætin. En keppni hinna fjögura verður hörð og mín spá er að ekkert lið fari án taps úr þessum riðli.

Svona er mín röð:

NR.6        BRETLAND
Þeir eru klárlega með slakasta liðið í þessum riðli. Reynsla og gæði hinna 5 liðanna mun væntanlega ekki gefa Bretum færi á sigurleik í þessu móti.

NR.5        BELGÍA
Eins og menn vita þá fengum við bara B-lið Belgíu hérna í æfingaleikina og það lið var alls ekki uppá marga fiska. Hins vegar er A-liðið mun betra og þar er reynsla og einhver gæði líka. Á góðum degi gætu þeir náð í tvo sigurleiki en til þess þarf margt að ganga upp.

NR.4        SERBÍA
Ég held að sæti 1-4 í þessum riðli verði mjög jafnt. Serbar eru með frábært lið og á góðum degi geta þeir klárað þetta mót. Mín spá er hins vegar að þetta mót verði vonbrigði og að þeirra helstu stjörnur séu komnar með hugan við nýjar áskoranir í NBA deildinni (Teodosic og Bogdanovic).

NR.3        RÚSSLAND
Þeir mæta væntanlega með reynslumikið lið. Þar eru fullt af gæðum líka. Einhvernvegin er lítil pressa á þeim núna. Þannig að það gæti hjálpað og kannski mun díselvélin þeirra keyra eitthvað lengra en margir halda. En ég held að það vanti aðeins meira til að þeir geti klárað þetta núna.

NR.2        LETTLAND
Það eru örugglega margir sem spá þeim sem spútnik-liði og ég held að það séu allar forsendur til þess. Þeir virðast hafa margt til brunns að bera. Porzingis er líklega mest spennandi leikmaður mótsins og hann þarf náttúrulega að vera í sínu besta formi. Það eru líka margir aðrir ungir leikmenn á uppleið hjá þeim sem gætu sprungið út. Þetta er það lið sem ég hlakka mest til að sjá.

NR.1        TYRKLAND
Heimavöllurinn mun vega þungt fyrir þá og vonandi er ekki of mikil pressa á þeim. Liðið þeirra er mjög gott og ef allt er eðlilegt þá fara þeir langt í þessu móti. En mér finnst einhvernvegin að meðbyrin sé ekki með þeim núna og að þeir muni ekki standa undir öllum væntingum. Spái því að þeir klári riðilinn efstir en svo verði þetta þungt eftir það.

Yfirlit yfir riðlana á EM

Fréttir
- Auglýsing -