Nú styttist óðfluga í lokakeppni EuroBasket 2017 þar sem Ísland mun í annað sinn í röð taka þátt. Eins og flestum ætti að vera kunnugt leikur Ísland í A-riðli sem fram fer í Helsinki en hinir þrír riðlarnir fara fram í Ísrael, Rúmeníu og Tyrklandi.
Karfan.is fékk nýráðinn þjálfara Þórs á Akureyri, Hjalta Þór Vilhjálmsson, til þess að rýna í C-riðil sem fram fer í Rúmeníu og inniheldur Spán, Króatíu, Svartfjallaland, Tékkland, Ungverjaland og Rúmeníu.
Eurobasket 2017
C-Riðill – Hjalti Þór Vilhjálmsson
Í C-riðli eru Spánn, Króatía, Svartfjallaland, Tékkland, Ungverjaland og Rúmenía. Svona fyrirfram ættu fjögur fyrstnefndu liðin að fara áfram og Ungverjaland og Rúmenía ættu að sitja eftir.
Spánn
Spánverjar hafa verið gríðarlega sterkir í langan tíma og hafa verið eitt af bestu liðum heims undanfarin ár og unnu meðal annars Eurobasket 2015. Spænska liðið er mjög vel mannað og eru allir leikmenn liðsins annað hvort að spila í NBA (7) eða bestu liðum Evrópu. Spánverjar urðu fyrir áfalli þegar að Sergio LIull meiddist í æfingaleik gegn Belgum en LIUll var valinn MVP í spænsku deildinni og Euroleague síðasta vetur. Það er mikill missir fyrir Spánverja og keppnina sjálfa að missa þennan frábæra bakvörð Real Madrid á Spáni. Flest lið hefðu getað pakkað saman og sleppt því að mæta á Eurobasket við það að missa svona öflugan leikmann en Spánverjar hafa úr stórum hópi bakvarða að velja og má þar nefna Ricky Rubio (Minnesota NBA) og Sergio Rodriguez (CSKA) sem báðir eru taldir í fremstu röð í heiminum. Ekki má gleyma að nefna Gasol bræður sem ekki þarf þó að segja meira um. Spánverjar eru að vinna í að yngja upp lið sitt og eru í liðinu nokkrir ungir og mjög efnilegir sumir myndu segja einfaldlega góðir leikmenn, en sá sem fékk mestu athyglina í fyrra var Guillermo Hernangomez leikmaður New York Knicks en hann endaði tímabilið í NBA afar sterkt og er þetta leikmaður sem ég mæli með að menn fylgjast með í framtíðinni, duglegur og skemmtilegur leikmaður. Annars er auðvitað Navarro síungur.
Króatía
Króatía er með ungt og skemmtilegt lið sem hafa tekið miklum framförum í sínum leik síðustu árin. Eftir Eurobasket 2013 þar sem að þeir enduðu í 4.sæti áttu sér stað mikil kynslóðaskipti í landsliði Króatíu. Þeirra helsta nafn Bojan Bogdanovic hefur verið að spila nánast óaðfinnanlega með landsliðinu og nær ávalt að búa eitthvað til fyrir þá þegar á þarf að halda. Dario Saric leikmaður Philadelphia 76ers er leikmaður sem menn ættu að fylgjast með hjá Króatíu, stór strákur sem hefur vaxið mikið í sínum leik og líkt og Hernangomez hjá Spánverjum að þá átti Saric frábæran seinnihluta í NBA þetta tímabilið. Króatar eiga alls 6 leikmenn sem spila í NBA liðum. Mario Hezonja leikmaður Orlando gaf þó ekki kost á sér að þessu sinni en Króatar eiga tvo leikmenn fædda 1997 sem spiluðu sitt fyrsta tímabil í NBA í fyrra, þeir Dragan Bender, 213cm Phoenix Suns og Ivica Zubac, 216 (LA Lakers). Framtíðin er sannarlega björt hjá Króatíu en árgangur 1994, 1995 og 1997 eru mjög öflugir.
Svartfjallaland
Svartfjallaland komst ekki á Eurobasket 2015 en frá 2015 hafa Svartfellingar tekið miklum framförum og töpuðu einum leik í undankeppninni fyrir Eurobasket 2017 og fór líkt og við inn sem lið með besta árangur í öðru sæti, þeir unnu einnig Smáþjóðaleikana sem haldnir voru á Íslandi nokkuð auðveldlega. Aðalleikarar í liði Svartfjallalands eru Nikola Vucevic 213cm (Orlando Magic), Tyrese Rice (Barcelona) og Bojan Dubljevic 205 (Valencia). Svartfellingar hafa fínasta vopnabúr í kringum teiginn en þeim vantar meira en Rice í bakvarðasveitina en eiga þó mjög unga og efnilega leikmenn á borð við Nikola Ivanovic og Petar Popovic. En Svartfellinga vantar tvo af þeirra lykilmönnum þá Vladimir Dasic 207cm (AEK Grikklandi) og Milko Bjelica 207cm (Crvena Zvezda Serbia) sem eru meiddir. Einn af efnilegustu leikmönnum leikmönnum Svartfellinga er Dino Radoncic 202cm sem spilar með Real Madrid og er 99 módel.
Tékkland
Tékkar náðu sínum besta árangri á Eurobasket 2015 þar sem að þeir enduðu í 7.sæti og komu flestum á óvart. Tékkar leika hraðan bolta og erum með stóra stráka sem geta hlaupið völlinn. Þeirra helsti leikmaður er Tomas Satoransky 201cm bakvörður (Washington Wizards) en margir af leikmönnum Tékka spila í Tékknesku deildinni og flestir í þeirra besta félagsliði Nymburk. Ondrej Balvin 217cm sem núverið samdi við Gran Canarias er meiddur og mun ekki spila með Tékkum og einnig einn af þeirra allra bestu mönnum Jan Vesely 213cm (Fenerbahce) ákvað að gefa ekki kost á sér. Tékkland þarf að eiga mjög gott mót og mikla lukku með sér ef þeir ætla að ná að toppa árangurinn frá síðasta Eurobasket.
Ungverjaland
Ungverjaland er eina liðið sem er sett fyrir neðan íslenska liðið á styrkleikalistann fyrir mótið en hverjum er ekki sama um þennan lista annars! Ungverjar hafa ekki komist inn á Eurobasket í 18 ár eða síðan þeir komust inn árið 1999. Þeir spiluðu á móti í Rússlandi þar sem að Ísland var einnig og þrátt fyrir að tapa öllum sínum leikjum á mótinu að þá sýndu þeir nokkra góða takta og áttu sinn besta leik gegn Þjóðverjum sem var síðasti leikur mótsins sem þeir töpuðu með tveim stigum. Þeirra aðalmenn eru Zoltan Perl (Treviso) og Rosco Allen (Tenerife) en þeir hafa þó marga aðra stráka sem gera sitt og mynda fína liðsheild. Einnig var De Andre Kane (Sevilla) að fá Ungverskt vegabréf og það verður spennandi að sjá hvernig hann smellur inn í liðið.
Rúmenía
Rúmenía skákar Ungverjalandi í fjölda ára frá síðasta Eurobasket en 30 ár eru síðan að Rúmenía tók síðast þátt í lokakeppninni eða árið 1987. Tveir leikmenn í landsliði Rúmeníu spila fyrir utan Rúmeníu en það er Vlad Moldoveanu 206 (Demir IBB Tyrklandi) og þeirra mesta efni Emanuel Cate 206 (Prat Spáni) en hann er fæddur 97. Rúmenar eru mjög kröftugir og fara langt á liðsheildinni.
Þó svo að ég telji að Rúmenía og Ungverjaland eigi ekki mikið í hin fjögur liðin fullskipuð að þá tel ég að það vanti of mikið í tékkneska liðið og að þeir muni sitja eftir í þetta skiptið. Einnig held ég að Króatar taki riðilinn og vinni Spán þó svo að ég telji að Spánn fari alla leið í mótinu og vinni mótið.
D-riðill
Króatía
Spánn
Svartfjallaland
Ungverjaland
Tékkland
Rúmenía
Sjá alla riðlana á EuroBasket 2017
Tengt efni: EuroBasket 2017: D-riðill