spot_img
HomeFréttirEuroBasket 2017: B-riðill

EuroBasket 2017: B-riðill

Nú styttist óðfluga í lokakeppni EuroBasket 2017 þar sem Ísland mun í annað sinn í röð taka þátt. Eins og flestum ætti að vera kunnugt leikur Ísland í A-riðli sem fram fer í Helsinki en hinir þrír riðlarnir fara fram í Ísrael, Rúmeníu og Tyrklandi.

Karfan.is fékk Einar Árna Jóhannsson þjálfara Þórs í Þorlákshöfn til þess að rýna í B-riðil sem fer fram í Ísrael og inniheldur Úkraínu, Þýskaland, Ítalíu, Ísrael, Georgíu og Litháen.

Einar Árni Jóhannsson
B-riðill á EuroBasket 2017:

B riðillinn fer fram í Tel Aviv í Ísrael og ásamt gestgjöfunum eru Úkraína, Litháen, Georgía, Ítalía og Þýskaland. Tvö síðastnefndu voru náttúrulega með okkur í Berlín en það eru stórir bitar farnir úr þeim liðum síðan þá þar sem Gallinari tók reiða kallinn á þetta og braut á sér hendina þegar hann lenti í áflogum í einum æfingaleiknum nýlega og þar með misstu Ítalir einn af sínum bestu mönnum. Þjóðverjar eru svo að læra að lifa án Dirk, sem var þokkalega mikilvægur biti í þeirra liði. Ég þykist samt í raun viss um neðsta og efsta sætið en þykir hitt galopið og held að þetta geti farið allavega. Þjóðverjar og Ítalir eru fyrir mér að berjast um síðasta spottið inn en gætu hæglega endað í topp þremur ef því er að skipta.

6. sæti – Úkraína

Ég hef ekki trú á að Úkraína vinni leik í riðlinum.  Þeir voru 1-4 á Eurobasket 2015 og riðillinn er sterkur.  Úkraína vann 4 leiki af 6 í undankeppninni en þeir lágu í báðum leikjunum gegn Slóvenum.

5. sæti – Þýskaland

Dennis Schroder er kóngurinn í Þýskalandi og það má vera að þessi spá fari fjandans til með Þjóðverja í 5. sæti og þar með úr keppni.  Þjóðverjar eru fyrir mér lið sem gæti í raun endað hér og þar í riðlinum en vonbrigða niðurstaða er spádómurinn minn.

4. sæti – Ítalía

Með Ettore Messina í þjálfarastólnum er ég spenntur fyrir Ítölum en það vantar nokkur nöfn í þeirra hóp. Gentile og Gallinari hefðu hjálpað þessu liði mikið og væri hægt að týna fleiri til sem vantar.  Ég held að Ítalía hafi betur gegn Þjóðverjum um þetta loka sæti í 16 liða úrslitum.

3. sæti – Ísrael

Ég ætla að setja heimamenn í þriðja sætið óvænt. Þeir fóru í 16 liða úrslit 2015 en áttu ekki breik í Ítali þá.  Þessi lið mætast í fyrsta leik í Tel Aviv og ég held að fjörið á pöllunum eigi eftir að veita heimamönnum styrk og þeir setji tóninn fyrir það sem koma skal með því að vinna Ítali.

2. sæti – Georgía

Georgíumenn eru með flottan hóp og sterka stóra stráka.  Reynsla manna eins og Zaza Pachulia hjá Golden State telur.  Georgía vann til að mynda Grikki í æfingaleik á dögunum sem er til marks um styrk þeirra.

1.sæti – Lithaáen

Ég set Litháen í toppinn á riðlinum og sé þá alveg vinna alla leikina, en ég yrði heldur ekkert hissa þó þetta yrði jafnara og jafnvel að þeir endi jafnir heimamönnum og Georgíu.  Lukas Lekavicius leikstjórnandi liðsins og verðandi leikmaður Panathinakios er fótbrotinn. Jonas Valanchiunas er i uppáhaldi hjá mér en ég sá hann vinna EM með sínum mönnum í U18 árið 2010 og hef fylgst vel með honum síðan.

Riðlarnir á EuroBasket 2017

Tengt efni:

EuroBasket: C-riðill
EuroBasket: D-riðill

Fréttir
- Auglýsing -