Nú styttist óðfluga í lokakeppni EuroBasket 2017 þar sem Ísland mun í annað sinn í röð taka þátt. Eins og flestum ætti að vera kunnugt leikur Ísland í A-riðli sem fram fer í Helsinki en hinir þrír riðlarnir fara fram í Ísrael, Rúmeníu og Tyrklandi.
Karfan.is fékk Jakob Örn Sigurðarson fyrrum landsliðsmann Íslands og núverandi leikmann Boras Basket í Svíþjóð til að rýna í A-riðil Íslands sem fram fer í Helsinki. Ásamt Íslandi eru heimamenn í Finnlandi, Grikkir, Frakkar, Slóvenar og Pólverjar.
EuroBasket 2017
A-riðill: Jakob Örn Sigurðarson
Riðilinn okkar er erfiður en hrikalega skemmtilegur. Ég tel það mikinn plús að spila í Finnlandi. Ég býst bæði við því að fullt af Íslendingum muni mæta til að styðja liðið og einnig kæmi það ekki á óvart ef við fengjum smá stuðning frá Finnum. Við förum langt á stemmningu eins og sýndi sig í Berlín og þetta gæti hjálpað okkur mikið. Grikkir og Frakkar hafa misst sína bestu menn en eru samt að mér finnst sterkustu þjóðirnar í riðlinum. Frakkarnir gætu orðið erfiðastir fyrir okkur. Þeir eru með mikla íþróttamenn og þannig leikmenn skapa oftast mestu vandræðin fyrir okkur. Grikkir verða án Giannis Antetokounmpo en eru með aðra sterka leikmenn sem spila í bestu liðum Evrópu. Það verður erfitt að fá þá til að fara frá sínum leik og í okkar hraða leik.
Finnar verða mjög erfiðir á heimavelli með mikinn stuðning. Þeirra leikmannahópur hefur líka verið saman lengi með sama þjálfara og system og eru komnir með reynslu af að spila á stórmótum.
Slóvenía og Pólland eru með mjög góða leikmenn en mér finnst þeir svolítið upp og niður í leik sínum og spurning hversu alvarlega þeir taka okkur.
Alveg eins og í Berlín held ég að við munum lenda í jöfnum leikjum þar sem lítið mun skilja á milli sigurs eða taps. Vonandi mun það hjálpa okkur að hafa verið í þannig leikjum í Berlín. Mér líst mjög vel á hópinn okkar og finnst leikgleði og samheldni vera í hópnum. Góð blanda af ungum og eldri leikmönnum og margir sem voru með í Berlín. Það er alveg ljóst að við ætlum ekki bara að vera með heldur ná í fyrsta sigurinn á Eurobasket og vonandi fleiri en einn!
Allir riðlar á EuroBasket 2017
Vefhluti Íslands á EuroBasket 2017
Tengt efni
EuroBasket 2017: B-riðill
EuroBasket 2017: C-riðill
EuroBasket 2017: D-riðill